150. löggjafarþing — 38. fundur,  2. des. 2019.

tekjuskattur og staðgreiðsla opinberra gjalda.

3. mál
[17:12]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Eins og vel kemur fram í umsögn ASÍ og ítarlegu og góðu nefndaráliti frá fulltrúa Samfylkingarinnar í efnahags- og viðskiptanefnd, sem mér heyrist að hæstv. ráðherrar hafi allir lesið og vonandi allir hv. þingmenn líka, mun skattbyrði para sem hafa tekjur við neðri fjórðungsmörk og hafa tvö börn á framfæri verða með réttu 1 prósentustigi lægri en barnlausra para með sömu tekjur. Skattbyrði tekjuhærri para með og án barna verður hin sama. Því er ljóst að hjá okkur er og verður barnabótakerfið, samkvæmt stefnu ríkisstjórnarinnar, langt frá kerfum hinna norrænu ríkjanna þar sem markmiðið er að jafna stöðu barnafólks og þeirra sem ekki eru með börn á framfæri. Því miður tekur ríkisstjórnin tillögur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í þessum efnum sér til fyrirmyndar í stað þess að líta til hinna norrænu ríkjanna. (LRM: Rangt.) Rétt.