150. löggjafarþing — 38. fundur,  2. des. 2019.

sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki.

4. mál
[17:18]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hérna er um að ræða skatt sem er tiltölulega nýlega tilkominn og var kynntur til sögunnar með sérstökum rökum á eftirhrunsárunum. Hann er íþyngjandi fyrir fjármálastarfsemina. Það lá fyrir frá upphafi að það yrði ekkert áhlaupaverk að afnema hann, enda hafa skattar oft tilhneigingu til að lifa miklu lengur en gert var ráð fyrir í upphaflegum hugmyndum. Í þessu tilviki hef ég lagt áherslu á það, og ég hef lagt þetta mál fyrir þingið áður, að við þurfum að taka ákvarðanir, jafnvel þótt þær komi ekki allar til framkvæmda þá þegar. Hér er verið að lögfesta lækkun á þessum skatti til að veita fyrirsjáanleika um rekstrarumhverfi fjármálafyrirtækja. Við þurfum að gera það í skrefum. Það hefði verið betra að gera það hraðar og best hefði verið að þessi skattur (Forseti hringir.) hefði aldrei verið lagður á. Þess þurfti þó vegna aðstæðna á sínum tíma og nú er tekin sú mikilvæga ákvörðun að afnema hann.