150. löggjafarþing — 39. fundur,  3. des. 2019.

heimild til að greiða bætur vegna dóms Hæstaréttar í máli nr. 521/2017.

183. mál
[14:55]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get alveg skilið það sjónarmið að menn telji að það eigi að semja, ekki halda sig við kröfuna um sýknu, en ekkert er því til fyrirstöðu að gera það. Stjórnvöld hafa forræði á málinu. Ríkislögmaður vinnur fyrir hönd þeirra. Það sem ég skil ekki er að fara þurfi með málið inn í þingið til þess. Ég sé ekki ástæðuna fyrir því. Það er hættan að við séum að taka svona mál inn í þingið í staðinn fyrir að stjórnvöld segi: Jú, við ætlum bara að viðurkenna að það er einhver bótaskylda. Við fáum lögfræðiráðgjöf um það hvað teljist eðlilegar bætur, og við bjóðum þær. Það er mjög eðlilegt. En hér er verið að fara einhverja leið sem mér þóknast ekki og ég held að hv. þingmanni þóknist það ekki heldur, ég þykist vita það af því að við vorum nú einu sinni saman í skóla. Ef menn eru að hugsa um það að bótaskylda til allra sem menn vilja greiða bætur til væri t.d. ekki klár í núgildandi lögum og við myndum leggja fram frumvarp um að það næði til þess hóps, eins og aðstandenda og ættingja, þá gæti ég skilið svona frumvarp. En ég er bara að segja: Þetta er hættulegt fordæmi að mínu viti. Þetta mál á ekki heima hér í þinginu, þá ekki nema við sérstakar aðstæður sem ég held að séu ekki uppi núna. Við eigum að fela réttmætum stjórnvöldum að leysa þetta mál með hliðsjón af þessum dómi.

Nú ætla ég ekki að tala um forsöguna sem ég er ósáttur við, það er annar handleggur, við erum bara að tala um þetta frumvarp hér. Ég held að það sé ekkert mál að leysa það án þess að þetta frumvarp sé hér til afgreiðslu.