150. löggjafarþing — 39. fundur,  3. des. 2019.

heimild til að greiða bætur vegna dóms Hæstaréttar í máli nr. 521/2017.

183. mál
[15:15]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er að reyna að átta mig á ræðu hv. þingmanns. Er hann samþykkur þessu frumvarpi? Ætlar hann að greiða atkvæði með því eða er hann á móti því? Ég er engu nær. Það sem ég hefði viljað fá að vita, kannski vegna fyrri starfa hv. þingmanns, er hvort honum finnist eðlilegt í svona máli, sem er vissulega flókið að mörgu leyti, mjög flókið að meta bætur í, vegna þess að það er svo margt annað í þessu máli, að greiddar séu bætur eða samið um bætur án þess að látið sé reyna á það hversu stór hluti af refsingunni var t.d. út af öðru, hvort sakborningarnir sjálfir beri ábyrgð á einhverju í þessu máli, lengd vistarinnar o.s.frv.? Ætlast hv. þingmaður til að stjórnmálamenn fari að meta þetta? Finnst honum ekki eðlilegt undir öllum kringumstæðum að dómstólar meti þetta?

Svo vil ég líka spyrja hvort þingmanninum finnist það eðlilegur framgangur máls að stjórnvald ákveði endurupptöku, stjórnvald ákveði að krefjast sýknu. Ég ætla ekki að fara í umræðu um ágæti álits Ragnars Aðalsteinssonar, sem ég er algjörlega ósammála, en það er allt í lagi. Finnst mönnum eðlilegt að framgangur málsins sé með þessum hætti, að stjórnmálin taki þetta yfir með þessum hætti? Það finnst mér ekki.