150. löggjafarþing — 39. fundur,  3. des. 2019.

heimild til að greiða bætur vegna dóms Hæstaréttar í máli nr. 521/2017.

183. mál
[16:03]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson hefur sagt hvað eftir annað að hann treysti ekki dómstólum, treysti ekki dómskerfinu. Finnst hv. þingmanni eðlilegt að þingmenn geri það í pontu, af því að menn séu að segja hlutina eins og þeir eru? Það er miklu eðlilegra að hv. þingmenn gagnrýni einstök mál, ég tala nú ekki um ef þeir hafa einhverja vitneskju um það og þekkingu á því. Þessi málflutningur er að mínu viti fyrir neðan allar hellur. Ekkert kerfi er fullkomið og ef menn hefðu svona miklar áhyggjur af þessu kerfi væri kannski tilefni til að koma með tillögur til að breyta því, en þetta er okkar kerfi, þetta er okkar réttarkerfi. Þetta er okkar réttarríki sem er mikilvægt og ég tel mikilvægt að þingmenn séu ekki í pontu Alþingis að tala með þeim hætti sem gert er hér.