150. löggjafarþing — 40. fundur,  4. des. 2019.

framtíð innanlandsflugs.

[15:23]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Ég efast ekki um góðan ásetning ráðherra í því að reyna að eyða óvissu og reyna að tryggja fyrirsjáanleika. En það er nú einu sinni svo að í þessu nýundirritaða samkomulagi er sérstaklega tekið fram að samkomulag þetta víki ekki til hliðar samkomulagi innanríkisráðherra og borgarstjóra frá 25. október 2013 um að ráðuneytið og Isavia ohf. hafi forgöngu um að kennslu- og einkaflugi verði fundinn nýr staður í nágrenni borgarinnar. Í því sama samkomulagi er einnig talað um að norður/suður-brautinni verði lokað 2022 og tímamörkin í þessu nýundirritaða samkomulagi miðast einmitt við lok árs 2021. Erum við að fara að horfa upp á að Reykjavíkurflugvöllur muni missa norður/suður-brautina á árinu 2022? Hvar verður þá æfinga-, einka- og kennsluflugi fundinn staður? Hvað verður um innanlandsflugið þar sem nýtingarstuðull þess flugvallar mun ekki ná 95% nothæfisstuðli miðað við skilgreiningu reglugerðar 464/2007 og viðauka 14 frá Alþjóðaflugmálastofnuninni?