150. löggjafarþing — 40. fundur,  4. des. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[17:34]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir þingsályktunartillögu og svo seinna í dag seinni tillögunni sem er stefnumarkandi fyrir árin 2020–2034. Þessi tillaga er aðgerðaáætlun fyrstu fimm ára sem er hluti af og innan ramma stefnumarkandi áætlunarinnar og kannski hluti hennar. Ég mun þar af leiðandi óhjákvæmilega fjalla um þær báðar í einu.

Þann 7. febrúar 2019 voru samgönguáætlanir fyrir árin 2019–2023 og 2019–2033 samþykktar á Alþingi. Í meirihlutaáliti umhverfis- og samgöngunefndar var lagt til að samgönguáætlun yrði endurskoðuð fyrr en lög gera ráð fyrir en það er á a.m.k. þriggja ára fresti. Var það í fyrsta lagi byggt á mati á þörf fyrir samgöngubætur um land allt, í öðru lagi að vinna stæði yfir við að útfæra samning um samgöngur á höfuðborgarsvæðinu og í þriðja lagi vegna endurskoðunar á framtíðarfjármögnun vegakerfisins. Samgönguráð vann í hendur ráðherra tillögu að samgönguáætlun 2020–2034 ásamt þessari tillögu að aðgerðaáætlun og hún er sem sagt lögð fram með hliðsjón af nýrri fjármálaáætlun, þeirri nýjustu, en þar var fjármagn aukið verulega eftir að samgönguáætlun var samþykkt. Auk þess er tekið tillit til samgöngusáttmálans sem er niðurstaða starfshóps um fjármögnun samgönguframkvæmda, nýja stefnu ríkisins í flugmálum, nýja stefnu ríkisins í almenningssamgöngum milli byggða, niðurstöðu verkefnishóps um jarðgangakosti á Austurlandi sem og niðurstöðu verkefnishóps um lagningu Sundabrautar.

Þessi samgönguáætlun er þar af leiðandi um margt sérstök, enda lítum við kannski fyrst og fremst svo á að hún sé í raun uppfærsla á gildandi áætlun. Þannig er aðdragandi að framlagningu hennar óvenjustuttur og fyrst og fremst litið til áðurgreindra atriða.

Í október voru drög að tillögu til samgönguáætlunar lögð í opið samráð í samráðsgáttinni. Fjöldi athugasemda barst, yfir 80, og vil ég nýta tækifærið til að þakka öllum þeim sem sendu inn umsögn enda voru langflestar umsagnirnar bæði greinargóðar og upplýsandi. Eftir að unnið hafði verið úr athugasemdunum stóðu ákveðin atriði upp úr. Sum þeirra hafa áhrif á þá tillögu sem hér er lögð fram en önnur munu kannski nýtast betur seinna, svo sem í næstu endurskoðun bæði samgöngu- og síðan fjármálaáætlana.

Fjárhagsrammi fyrstu fimm ára áætlunarinnar tekur mið af þingsályktun um fjármálaáætlun 2020–2024. Í þeirri samþykktu fjármálaáætlun er gert ráð fyrir umtalsvert meira fjármagni til samgöngumála en verið hefur undanfarin ár. Á árunum 2022–2024 er þó gert ráð fyrir að útgjöld til nýframkvæmda á vegakerfinu verði 1,5 milljarðar kr. umfram ramma fjármálaáætlunar. Við þurfum sem sagt meira fé.

Í tillögum til þingsályktunar um samgönguáætlun er gert ráð fyrir að ríkisframlög til 15 ára áætlunar verði um 637 milljarðar — 560 fara til vegamála — en á þessu fimm ára tímabili eru það þar af leiðandi um 170 milljarðar. Samkvæmt fjármálaáætlun eru framlög til vegamála á árunum 2020–2024 aukin um 4 milljarða hvert ár. Framlög í þjónustu og viðhald á vegakerfinu eru aukin miðað við gildandi áætlun. Þannig er þjónustan aukin um 640 milljónir á ári og viðhaldið um 500 milljónir á ári. Samtals eru því framlög til viðhalds og þjónustu að aukast um rúma 15 milljarða sé litið til 15 ára tímabilsins alls, þ.e. um 1 milljarð á ári. Þar við bætist að kostnaðaráætlanir þeirra verka sem á áætluninni eru hafa hækkað frá gildandi áætlun, en vísitala áætlana sem Vegagerðin reiknar út hækkaði um tæp 9% milli áætlana. Slíkt hefur mikil áhrif á það svigrúm sem við höfum til framkvæmda.

Framlög til uppbyggingar tengivega aukast um 609 millj. kr. á næstu fimm árum frá gildandi áætlun og þá á 15 árum um 4,4 milljarða þegar tekið hefur verið tillit til þess að Vatnsnesvegur er nú kominn inn á áætlun en hann er tengivegur. Þá eru framlög til viðhalds flugvalla og til Hafnabótasjóðs aukin frá gildandi áætlun.

Aukin framlög samkvæmt fjármálaáætlun ásamt aukinni áherslu á sérstaka fjármögnun valda því að þrátt fyrir umtalsverða aukningu í framlög til viðhalds og þjónustu og mikla hækkun áætlaðs kostnaðar er framkvæmdum um allt land flýtt með einum eða öðrum hætti frá gildandi áætlunum. Verkefni koma ný inn eða þau færast framar í tíma. Stærstu einstöku framkvæmdirnar sem þannig færast nær okkur eru í jarðgangagerð á Austurlandi og stofnbrautunum til og frá höfuðborgarsvæðinu og innan höfuðborgarsvæðisins þar sem stórar framkvæmdir á stofnbrautum færast fram. Alls er gert ráð fyrir því að framkvæmdum sem samtals eru metnar á um 214 milljarða verði flýtt frá gildandi áætlun og þá er ég að tala um 15 árin en mesta flýtingin er á næstu fimm til sjö árum.

Framtíðarsýnin og meginmarkmiðin eru um þá stefnu að innviðir samgöngu- og fjarskiptakerfa og byggðaáætlunar myndi eina samofna heild sem þjóni og mæti þörfum einstaklinga og atvinnulífs á skilvirkan og öruggan hátt um allt land. Settur hefur verið aukinn kraftur í samþættingu þessara áætlana þannig að markmið og áherslur þeirra styðji hvert annað í stað þess að vinna hvert í sínu lagi. Sú áætlun sem hér er lögð fram felur í sér mikilvæga framtíðarsýn og markmið og í fimm ára aðgerðunum er grunntónninn öryggi. Það má segja að að loknu þessu 15 ára tímabili verði umferðarmestu vegirnir til og frá höfuðborgarsvæðinu komnir með aðskilda akstursstefnu, 2+1 eða 2+2, á Vesturlandsvegi alla leið að og fram hjá Borgarnesi, á Suðurlandsvegi að Hellu og á Reykjanesbraut að flugstöðinni. Suðurlandsvegur og Reykjanesbraut verða raunar fullkláruð á fyrstu tveimur tímabilunum, þ.e. fyrir árið 2029. Unnið er að því að finna leiðir til að flýta framkvæmdum við Reykjanesbraut enn frekar, enda er sá vegur einn umferðarmesti þjóðvegur landsins. Skipulagsmál á svæðinu við Straumsvík eru enn óleyst en Vegagerðin áætlar að verkefni þar gætu verið boðin út í fyrsta lagi í lok árs 2022 ef við höfum fjármagn til þess þá.

Annað mikilvægt markmið er að klára uppbyggingu vegakerfisins á Vestfjörðum. Þannig er að eftir næstu fimm ár, í lok fyrsta tímabils, verður komin á hringtenging Vestfjarða með Dýrafjarðargöngum og uppbyggðum vegum yfir Dynjandisheiði. Á öðru tímabili bætist síðan við uppbygging Vestfjarðavegar til Bíldudals. Með nýrri vegtengingu um göngin styttist leiðin um 27 km og þá verður kominn nýr uppbyggður vegur um sunnanverða Vestfirði alla leið til Patreksfjarðar, enda er vegagerð í Reykhólasveit vonandi að fara í gang.

Með vegabótum áætlunarinnar á sunnanverðum Vestfjörðum og uppbyggingu vegar til Borgarfjarðar eystri verður á tímabilinu mikilvægu markmiði samgönguáætlunarinnar til langs tíma náð, þ.e. að tengja með bundnu slitlagi allar byggðir með meira en 100 íbúa. Þá verða margar eldri stórar brýr endurnýjaðar, svo sem brúin yfir Ölfusá á næstu árum, brúin yfir Jökulsá á Fjöllum, Lagarfljót og báðar brýrnar yfir Skjálfandafljót, svo nokkrar séu nefndar.

Í áætluninni er lögð aukin áhersla á það að koma á samvinnu milli einkaaðila og hins opinbera við uppbyggingu innviða og tryggja þannig að þjóðhagslegur ábati þeirra skili sér hraðar en ella. Þannig er lagt til að hringvegur norðaustan Selfoss ásamt nýrri brú yfir Ölfusá, tvöföldun Hvalfjarðarganga, hringvegur um Mýrdal og jarðgöng í Reynisfjalli auk Sundabrautar verði fjármögnuð að fullu af einkaaðilum og verði unnin sem samvinnuverkefni. Þar að auki verða Axarvegur og hringvegur um Hornafjarðarfljót framkvæmd með blandaðri fjármögnun.

Helstu kostir samvinnuleiðar eru að fjármögnun er utan fjárlaga og veitir því möguleika til frekari flýtingar þjóðhagslega arðbærra verkefna. Þar að auki veitir þessi aðferð sterkan hvata til nýsköpunar sem getur hugsanlega leitt til lægri kostnaðar í hönnun, framkvæmd og rekstri.

Á u.þ.b. ári, frá því að síðasta áætlun var lögð fram á Alþingi, hefur okkur tekist að ná sögulegu samkomulagi við sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu um lausn umferðarvanda á svæðinu. Sáttmálinn tengir saman hagsmuni allra aðila svo fólk hefur raunverulegt val um fararmáta, fjölskyldubíl, almenningssamgöngur, göngu og hjólreiðar. Á þessu tímabili er gert ráð fyrir um 120 milljarða uppbyggingu á 15 ára tímabili og gert er ráð fyrir að fyrstu fimm árin verði framkvæmt fyrir um 10 milljarða að jafnaði. Gert er ráð fyrir að framlög af samgönguáætlun verði 2 milljarðar kr. á ári og sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu leggja þar til 1 milljarð að auki. Þar við bætist ábati af þróun og sölu á ríkislandinu við Keldur og sérstök fjármögnun í formi flýti- og umferðargjalda upp á 60 milljarða.

Í fyrsta sinn fylgir sérstök jarðgangaáætlun samgönguáætlun. Hún byggir á niðurstöðum starfshóps um jarðgangakosti á Austurlandi, en gert er ráð fyrir að síðar verði unnið heildstætt mat á öllum jarðgangakostum á Íslandi sem hér hefur verið fjallað um og sem hafa komið til umfjöllunar og þá framtíðarforgangsröðun þeirra. Gert er ráð fyrir að bein framlög af samgönguáætlun og jarðgangaáætlun standi undir um helmingi framkvæmdakostnaðar jarðganga. Í jarðgangaáætluninni er þannig gert ráð fyrir því að hafist verði handa við framkvæmdir við Fjarðarheiðargöng árið 2022, en með þeim mun nást langþráð markmið um að rjúfa einangrun Seyðisfjarðar. Í kjölfar þeirra er svo gert ráð fyrir að vinna hefjist við tvenn göng frá Seyðisfirði um Mjóafjörð til Norðfjarðar en með þeim göngum verður komin á hringtenging sveitarfélaga á Austurlandi sem gæti umbylt lífskjörum almennings og styrkt byggðir innan svæðisins.

Framlög til bæði viðhalds og þjónustu eru nú hækkuð talsvert frá gildandi áætlun, um ríflega 1 milljarð á ári samtals, en einnig eru í samgönguáætlun margar mikilvægar vegaframkvæmdir sem leiða til vegstyttinga og fækkunar einbreiðra brúa sem er hvort tveggja í þágu öryggis og umhverfis. Ein mikilvægasta framkvæmdin á fyrsta tímabili er ný brú yfir Hornafjarðarfljót og aðliggjandi vegir sem stytta hringveginn um 11 km.

Í samgönguáætlun er áfram áhersla á að styrkja og leggja bundið slitlag á umferðarlitla tengivegi þó að þeir uppfylli ekki kröfur um burðarþol og veglínu. Í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar er aukin áhersla lögð á almenningssamgöngur bæði á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni. Fyrsta heildarstefna í almenningssamgöngum er nú bæði hluti samgönguáætlunar og fylgiskjal með henni. Hin nýja stefna hefur það að markmiði að efla almenningssamgöngur sem valkost til ferðalaga milli byggða svo að til verði heildstætt leiðarkerfi á lofti, láði og legi.

Eitt af brýnustu verkefnum næstu ára er að draga svo úr neikvæðum áhrifum samgangna að þau falli innan marka sjálfbærrar þróunar án þess þó að kostir góðra samgangna skerðist. Ríkisstjórnin hefur sett fram aðgerðaáætlun í loftslagsmálum sem miðar að því að standa við skuldbindingar Íslands samkvæmt Parísarsamkomulaginu. Í samgönguáætlun er lagt til að unnið verði í samræmi við áherslur aðgerðaáætlunarinnar.

Eitt af meginmarkmiðum samgöngusáttmálans er þannig að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda vegna umferðar á höfuðborgarsvæðinu, m.a. með því að efla almenningssamgöngur og virka samgöngumáta og hvetja til breyttra ferðavenja.

Sömuleiðis eru áherslur nýrrar stefnu í almenningssamgöngum og flugmálum í þá átt að leitað verði leiða til að draga úr umhverfisáhrifum ferðamátanna. Er þar m.a. horft til orkuskipta en mjög stórt skref var tekið í þá átt þegar ný Vestmannaeyjaferja, Herjólfur, hóf siglingar. Hún getur keyrt á rafmagni eingöngu en er tvinnferja að öðru leyti. Ég hef ákveðið að hefja vinnu við greiningu á efnahagslegum hvötum til eflingar ræktun orkujurta á Íslandi, líka til þess að geta bætt í þá flóru að geta sótt í mismunandi orkugjafa sem eru endurnýjanlegir og umhverfisvænir.

Varðandi flugmál er heildstæð flugstefna fyrir Ísland í fyrsta sinn í 100 ára sögu flugsins hluti samgönguáætlunar. Ein af áherslum þar er að stutt verði við uppbyggingu Akureyrar- og Egilsstaðaflugvalla sem alþjóðlegra fluggátta. Við uppbyggingu innviða þar verði lögð áhersla á að þeir mæti sem best þörfum flugrekenda fyrir varaflugvelli hér á landi. Unnið er að því að Isavia taki að sér rekstur og uppbyggingu á Egilsstaðaflugvelli í samræmi við samþykkt samgönguáætlunar. Við það myndast svigrúm strax á næsta ári sem nýtist til viðhalds á öðrum flugvöllum, þar með talið Akureyrarflugvelli.

Við afgreiðslu fjárlaga var samþykkt að ríkinu væri heimilt að kaupa eða leigja húsnæði sem nýtist sem stækkun á flugstöðinni á Akureyrarflugvelli. Samhliða þessu er unnið að því að finna leiðir til þess að auka fjármagn og nýta í viðhald á flugvöllum landsins og jafna aðstöðumun landsmanna og er skoska leiðin svokallaða mikilvægt skref í þá átt. Flugfargjöld eru há í samanburði við það sem býðst í millilandaflugi. Greiðsluþátttaka stjórnvalda í Skotlandi hefur reynst vel og er ætlunin að eftir ár, þ.e. næsta haust, geti íbúar á landsbyggðinni notið góðs af henni og er það einnig í samræmi við samþykkta samgönguáætlun.

Áhersla er lögð á að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum flugs og flugtengds rekstrar og að greitt verði fyrir orkuskiptum í greininni. Nýverið var undirritað samkomulag þess efnis að farið verði í nánari rannsóknir á mögulegri nýrri staðsetningu flugvallar á höfuðborgarsvæðinu. Samningurinn tryggir framtíð Reykjavíkurflugvallar í Vatnsmýri og að hann muni áfram sinna innanlandsflugi næstu 15–20 ár hið minnsta. Næstu ár er áhersla lögð á að byggja upp Reykjavíkurflugvöll en um hann fara flestir farþegar innanlandsflugsins. Á tímabilinu verður unnið við yfirborðsviðhald á flugvöllunum í Vestmannaeyjum, á Ísafirði, Þórshöfn, Vopnafirði og Hornafirði. Þá verður farið í endurnýjun leiðsögu- og ljósabúnaðar á Þórshöfn og Hornafirði, auk viðhalds á byggingum og búnaði á Húsavík.

Samgönguáætlun miðar við að á fyrsta tímabili aðgerðaáætlunar sem við erum að ræða hér verði unnið að mótun siglingastefnu fyrir Ísland sem miðar að auknum hagvexti og atvinnusköpun í siglingum og tengdum greinum. Framlög til Hafnabótasjóðs nema um 1 milljarði árlega. Styrkjum er forgangsraðað, m.a. með hliðsjón af mikilvægi framkvæmda fyrir samgöngukerfi landsins, viðhaldsþörf, öryggi sjófarenda og hagkvæmni. Áætlaður framkvæmdakostnaður á árunum 2020–2024 í höfnum er um 7,9 milljarðar og utan grunnnets um 990 milljónir þar til viðbótar. Hlutur ríkissjóðs í framkvæmdum í höfnum er á árunum 2020–2024 áætlaður um 5,1 milljarður, sem sagt rúmur 1 milljarður á ári.

Unnið er að endurbótum á Landeyjahöfn sem ætlað er að tryggja stöðugra dýpi við hana og greiða fyrir siglingum í hana. Þannig er nú unnið að uppsetningu á botndælubúnaði en alls er gert ráð fyrir 355 millj. kr. fjárveitingu til hans á næstu fimm árum.

Ég legg til að þegar við höfum lokið umræðu um þessa áætlun sem og hina næstu gangi þau mál til hv. umhverfis- og samgöngunefndar og síðari umr.