150. löggjafarþing — 40. fundur,  4. des. 2019.

samgönguáætlun fyrir árin 2020-2034.

435. mál
[21:45]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Þá sýnist mér líða að lokum fyrri umr. um samgönguáætlun í dag en nú erum við að ræða samgönguáætlun til næstu 15 ára, þ.e. til ársins 2034. Hér hefur farið fram mjög gagnleg umræða þar sem einkum hefur verið fjallað um vega- og flugmál og kannski óvenjumikið um flugmálin og það er vel að þau séu virkilega komin á dagskrá, enda skipta þau samfélagið máli á marga vegu. En ég fór yfir ýmis mál í umræðunni um fimm ára áætlunina og ætla aðeins að stoppa við aðra hluti núna. Mig langar að byrja á að stoppa aðeins við það að með framkvæmdum sem nú eru á áætlun á Vestfjörðum og uppbyggingu vegar til Borgarfjarðar eystri er verið að ná markmiði um að tengja alla byggðakjarna með bundnu slitlagi. Þetta tengist svo líka áherslu í núgildandi samgönguáætlun, og áfram í þessari sem við fjöllum um hér, á að leggja bundið slitlag á umferðarlitla tengivegi þó svo að þeir uppfylli ekki kröfur um burðarþol og veglínu. Þetta er afskaplega mikilvægt fyrir strjálbýlið og getur umbylt lífsgæðum fjölda fólks og ekki síst barna um land allt sem eiga leið um þessa vegi daglega til skóla og leikskóla eða til að sækja tómstundir. Auðvitað er þetta líka grunnur að tækifærum til atvinnusköpunar í dreifbýlinu. Þegar vegirnir eru lagðir bundnu slitlagi koma þeir líka í veg fyrir að býli þar sem er stunduð matvælaframleiðsla séu í stöðugum rykmekki heilu sumrin frá malarvegum, eins og því miður allt of margir búa við enn þá, því að enn eru malarvegirnir lengri en vegirnir með bundnu slitlagi.

Í tengslum við þetta finnst mér mikilvægt að vekja athygli á því að í fimm ára áætluninni og í markmiðunum í 15 ára áætluninni eru sameiginlegir óskiptir liðir í bundið slitlag á tengivegi, í að fækka einbreiðum brúm, í hjóla- og göngustíga, til samgöngurannsókna, til héraðsvega, landsvega utan stofnvegakerfisins, sem eru vegir á hálendinu sem ég ætla aðeins að nefna betur á eftir. Þar eru líka styrkir til þess sem hefur verið kallað styrkvegir og falla ekki undir skilgreinda þjóðvegi. Það er óskiptur liður í reiðvegi, smábrýr og girðingar. Þarna er fjármagn sem getur skipt mjög miklu máli í verkefni sem ekki eru endilega tíunduð sundurliðað í áætluninni en við megum ekki gleyma að halda til haga og fara aðeins yfir í vinnu umhverfis- og samgöngunefndar hvernig þessum liðum er síðan deilt út og þeim forgangsraðað.

Þá ætla ég aðeins að nefna hafnirnar sem eru auðvitað mjög mikilvægur liður í samgönguáætlun og eru samstarfsverkefni ríkis og sveitarfélaga. Hafnir eru lykill að verðmætasköpun í mörgum byggðarlögum og þar með samfélagsins alls. Nú á að móta siglingastefnu fyrir Ísland sem er mjög mikilvægt mál. Framlög til Hafnabótasjóðs nema um milljarði árlega og styrkjum er forgangsraðað m.a. með hliðsjón af mikilvægi framkvæmda fyrir samgöngukerfi landsins, viðhaldsþörf, öryggi sjófarenda og hagkvæmni.

Eitt sem er mjög mikilvægt að samþættist samgönguáætlun eru loftslagsmálin en þar er lagt til að unnið verði í samræmi við áherslur aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum. Þetta er mál sem við þurfum að rýna vel í vinnu umhverfis- og samgöngunefndar. Svo eru það almenningssamgöngurnar sem eru mjög mikilvægt verkefni, hafa mikla þýðingu, hafa mikil áhrif á lífsgæði íbúa. Vel skipulagðar almenningssamgöngur eru liður í að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og jafna aðgengi einstaklinga að gæðum og þjónustu samfélagsins. Það á við hvort sem verið er að nota almenningssamgöngur á landi, í lofti eða á legi. Það má segja að síðustu ár hafi farið fram mikilvæg tilraun í almenningssamgöngum um land allt, þ.e. utan höfuðborgarsvæðisins. Sumt hefur gengið vel en annað verr. Af þeirri reynslu verðum við að halda áfram að læra. Nú tekur Vegagerðin aftur við almenningssamgöngum á landsbyggðinni, enda ljóst að það þarf heildarsýn fyrir allt landið. En það þarf líka að byggja upp í hverjum landshluta samgöngunet í samræmi við sérstöðu hvers svæðis og í samstarfi við sveitarfélögin og landshlutasamtökin. Einhver dæmi eru um að landshlutasamtökin vilji áfram halda utan um verkefnið. Nú er ný heildarstefna í almenningssamgöngum hluti samgönguáætlunar og fylgiskjal með henni. Stefnan hefur að markmiði að efla almenningssamgöngur sem valkost til ferðalaga milli byggða svo að til verði heildstætt leiðakerfi í lofti, á láði og legi. Þá getum við vonandi farið að nota almenningssamgöngur tengdar innanlandsfluginu um land allt.

Að lokum langaði mig aðeins að koma inn á landsvegina, stofnvegakerfið og miðhálendið. Sama hvernig við lítum á verndun og nýtingu á miðhálendinu er mjög mikið verk óunnið, bæði við að skipuleggja hvernig við viljum forgangsraða samgöngum á hálendinu, hvar við viljum greiða leið fyrir umferð, hvernig vegi við viljum byggja upp og hvar við viljum halda umferð mjög takmarkaðri. Það er eitt af því sem við þurfum að fjalla um, tel ég, í umhverfis- og samgöngunefnd í vinnunni fram undan, hvernig samstarfi um það mál verði best háttað í samvinnu við sveitarfélögin sem fara með skipulag í landinu.

Virðulegi forseti. Ég hlakka til vinnunnar við þessa samgönguáætlun sem er metnaðarfull eins og fram hefur komið. Ég tel að verkefnin í samgöngumálum séu alltaf þannig að það sé heilladrjúgt að stíga eitt skref í einu því að þannig komumst við örugglega áfram veginn.