150. löggjafarþing — 41. fundur,  9. des. 2019.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2020.

2. mál
[16:27]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Virðulegur forseti. Mig langar að byrja á jákvæðu nótunum og hrósa hv. formanni fjárlaganefndar og hv. formanni efnahags- og viðskiptanefndar fyrir að leggja þessa breytingartillögu fram. Þó að sjaldan sé nóg að gert fyrir þennan tiltekna hóp er verið að stíga jákvætt skref með þessari uppbót. Í ljósi þess að hér er um einhvers konar reddingu að ræða er líka ágætt að tekin séu af öll tvímæli um að þetta valdi einhverri hringekju skerðinga sem er því miður hin sorglega staða þess lífeyriskerfis sem við búum við í dag. Þetta er gott skref þó að vafalítið megi halda því fram að það hefði mátt vera stærra. Því skal þó hrósað sem vel er gert.

Ég vildi fjalla um tvennt í þessu máli að öðru leyti. Fyrir það fyrsta þykja mér verðlagsuppfærslur á krónugjöldum í ýmsum tekjustofnum ríkissjóðs orðnar heldur leiðinlegur löstur á fjárlagavinnu og skattauppfærslu hér á landi. Ég hef svo sem nefnt það áður. Við getum sagt að þetta sé eftirlegukind af sjúkdómseinkennum verðbólguþjóðfélagsins sem við höfum blessunarlega notið þess að horfa svolítið á bak undangengin ár. Við höfum upplifað óvenjulegan verðlagsstöðugleika á undanförnum árum. Allar götur frá 2014 að telja hefur verðbólga verið í eða við verðbólgumarkmið að heita má. Mér finnst orðið tímabært að kveðja þann leiðindaávana að hér þurfi alltaf að vera að uppfæra á grundvelli verðlags öll krónutöluákvæðin sem eru í hinum ýmsu sköttum og gjöldum. Það er kannski ekki síst fyrir þær sakir sem við erum alltaf að glíma við það grundvallaratriði að gjaldtaka af ýmsu tagi er einfaldlega gjaldtaka fyrir veitta þjónustu. Sums staðar er um hreinan skatt að ræða, eins og á við um áfengi og tóbak, í krónutölum sem þar eru tilgreindar. Við förum aldrei í grundvallarumræðu við ákvörðun á þessum gjöldum um hvort gjaldtakan endurspegli kostnað eða ekki. Þó er grundvallaratriði að gjöld fyrir veitta þjónustu eigum við ekki að leggja á nema eingöngu til að mæta þeim kostnaði sem til verður og þegar þau hafa einu sinni verið ákvörðuð uppfærum við þau því miður blint á grundvelli verðlags. Mér fannst út af fyrir sig dálítið kómískt að standa í þeirri umræðu hér að menn væru að hreykja sér af því að nú væri eingöngu verið að hækka gjaldið um 2,5%, ekki 2,8% eða hvað það er sem verðbólgan mun mælast milli ársmeðaltala þegar upp verður staðið, að ríkisstjórnin teldi sér það raunverulega til tekna. Það hefði verið miklu metnaðarfyllra að afleggja einfaldlega verðlagsuppfærslur á þessum gjöldum. Þetta er orðinn hvimleiður ávani og ef við ætlum að vera samfélag sem trúir á verðlagsstöðugleika og festir einhvern verðlagsstöðugleika í sessi ætti ríkisvaldið að ganga á undan með góðu fordæmi og hætta einfaldlega þessum verðlagsuppfærslum, leggja þá frekar til grundvallar eitthvert mat á þeim kostnaði sem af hlýst í ýmsum tilvikum. Það þarf ekkert alltaf að færa þetta upp til verðlags og það myndi í raun setja aðhaldskröfu, getum við sagt, á ríkið líka að við hættum þessu einfaldlega og áskildum frekar ríkinu eða framkvæmdarvaldinu að koma með hagræðingartillögur á móti ef tekjur af óbreyttum gjaldstofni duga ekki til. Vissulega væri ánægjulegt að sjá ríkisstjórn þora að stíga það skref til að undirstrika mikilvægi þess að við sýnum raunverulega tiltrú á verðlagsstöðugleika fram á veginn.

Það er svo sem ekki mörgu öðru við að bæta um þetta tiltekna mál. Þó er eitt sem mér finnst til áréttingar mikilvægt að við drögum lærdóm af. Enn og aftur ber að fagna því að áformum varðandi útfærslu á urðunargjaldi á almennan úrgang, óvirkan úrgang til urðunar, hafi verið frestað eða þau slegin af í bili. Það er dæmi um hvernig allt of oft er staðið hér að málum. Þau koma lítt eða illa undirbúin inn til þingsins og allt of seint. Ég nefni ágætt mál sem er staðfesting á fiskveiðisamningi okkar við Færeyjar. Ég náði því miður ekki að fylgjast með umræðunni um það hér áðan. Samningurinn var gerður í sumar en aldrei virðist vera hægt að koma með slík mál fyrir þingið fyrr en rétt fyrir áramót. Mér hefur alltaf fundist óskiljanlegt hvers vegna þau eru alltaf svo seint á ferðinni. Í haust voru kynnt áform um urðunargjaldið en blessunarlega kom hratt og örugglega í ljós í umfjöllun efnahags- og viðskiptanefndar að málið væri í raun algjörlega ótækt frá grunni af því að það hafði ekkert verið undirbúið. Það hafði ekkert verið rætt við hlutaðeigandi sveitarfélög sem bera ábyrgð á útfærslu á því hvernig þetta gjald yrði innheimt og hvernig hægt væri að gera ráðstafanir til að draga úr urðun sem er tilgangur gjaldsins. Hefðu þau áform gengið eftir eins og lagt var upp með hefði þetta eingöngu verið til tekjuöflunar fyrir ríkissjóð án nokkurra útgjalda á móti á árinu 2020. Það er ekki hægt að standa svona að undirbúningi á jafn mikilvægu máli og hér er um að ræða.

Það er alveg ljóst að við höfum engan veginn staðið okkur þegar kemur að urðun. Við urðum langtum meira af sorpi, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu, en við höfum skuldbundið okkur til að gera. Við erum langt á eftir í innleiðingu á skuldbindingum okkar um að draga úr vægi urðunar og lítið hefur verið gert á undanförnum árum til að bæta þar úr. Fyrsta lífsmarkið sem við sjáum um það eru þau áform sem kynnt voru um urðunargjaldið en þá kom á daginn að það hafði ekkert verið undirbúið. Ekki hafði verið rætt við Sorpu og ekki við sveitarfélögin hér á höfuðborgarsvæðinu sem helst hefðu átt að útfæra þetta. Engar ráðstafanir höfðu verið gerðar til að gjaldið gæti raunverulega virkað. Sem betur fer var ákveðið að slá þessu á frest. En þetta eru auðvitað ekki boðleg vinnubrögð af því að eftir stendur, sem er auðvitað hið mikilvægasta í málinu, að við erum þar af leiðandi ekkert að gera að ráði á næsta ári til að draga úr urðun. Ég vona svo sannarlega að stjórnvöld og þau ráðuneyti sem þetta heyrir undir og bera ábyrgð á þessum málaflokki, annars vegar umhverfisráðuneytið og hins vegar fjármálaráðuneytið varðandi gjaldtökuna, noti tímann vel á fyrri hluta næsta árs til að undirbúa og innleiða heilsteypt kerfi í gjaldtöku fyrir urðun og eigi um leið nauðsynlegt samráð og samstarf með sveitarfélögunum og Sorpu til að tryggja að hægt sé að innleiða þar starfshætti og ráðstafanir til að fyrirtæki og heimili eigi kost á því að draga úr því magni úrgangs sem fer til urðunar hér á hverju ári. Þetta er ótækt. Við erum skelfilegir umhverfissóðar þegar kemur að þessum málaflokki og mér þykir mjög leitt að horfa á bak enn einu árinu án aðgerða í þeim efnum.

Í sjálfu sér þarf ekki að hafa frekari orð um þetta en vonandi sjáum við á næsta ári tillögur um að vera ekki í þessum krónutöluuppfærslum á gjöldum eins og ég nefndi. Síðast en ekki síst, til þess að ítreka það enn og aftur, er ég mjög ánægður með að sjá þessa ráðstöfun varðandi eingreiðslur til lífeyrisþega á árinu 2019 upp á 10.000 kr. Það er ánægjulegt að sjá að þarna sé vel brugðist við þó að vissulega hefði fjárhæð greiðslunnar alveg getað verið hærri.