150. löggjafarþing — 42. fundur,  10. des. 2019.

tilhögun þingfundar.

[13:32]
Horfa

Forseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Forseti vill segja um fundarhaldið í dag, með vísan til þess óveðurs sem er að ganga yfir landið, að það mun marka störfin hér eins og víðast hvar annars staðar í landinu á þessum degi. Þeir starfsmenn okkar og þingmenn sem þurfa að hverfa af fundi á næsta klukkutímanum eða svo til að sækja börn í leikskóla eða grunnskóla gera það að sjálfsögðu. Eins þurfa einhverjir heimanakstursmenn að fara af stað áður en vegir til og frá höfuðborgarsvæðinu kunna að lokast. Efnislegum atkvæðagreiðslum sem eru á dagskrá verður frestað þar til á morgun sökum þeirra sem þegar eru horfnir á braut og eru þar með 2.–6. dagskrármálið tekin af dagskrá þessa fundar.

Við munum reyna að nýta daginn eitthvað inn í eftirmiðdaginn til að þoka öðrum dagskrármálum áfram en reiknum með að ljúka fundi áður en alversta veðrið skellur á á höfuðborgarsvæðinu.