150. löggjafarþing — 42. fundur,  10. des. 2019.

viðvera þingmanna við atkvæðagreiðslu.

[13:37]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Mig langar að gera athugasemd við fundarstjórn forseta og sömuleiðis skýra afstöðu mína þegar kemur að afgreiðslu með afbrigðum. Ég tek undir orð þeirra þingmanna sem bent hafa á að þetta mál, sem lýtur m.a. að stjórn þjóðkirkjunnar, komi allt of seint fram. Nú vill svo til að þjóðkirkjan er ekki ný af nálinni og sömuleiðis ekki sá viðbótarsamningur sem við erum beðin um að veita afbrigði svo að komist á dagskrá. Mér finnst þetta vera hluti af gömlum vinnubrögðum. Þessi mál eiga að koma fram miklu fyrr. Við sjáum að seinna í dag erum við að fara að ræða fjáraukalögin. Þar er m.a. verið að setja 5,4 milljarða í kerfið vegna mistaka sem þessi salur gerði, vegna slæmra vinnubragða. Sömuleiðis er annar útgjaldaliður upp á 800 millj. kr. í fjáraukanum, aftur vegna þess að framkvæmd útgreiðslu örorkubóta var ekki í samræmi við lög. Mér finnst þetta vera hluti af stærri vanda og þess vegna mun ég greiða atkvæði gegn því að við veitum afbrigði eins og hér er farið fram á. Þessi vinnubrögð eru ekki til fyrirmyndar (Forseti hringir.) og ég held að við ættum öll, sama hvar við stöndum í pólitík, að vera sammála um að svona vinnubrögð eru ekki til góðs.