150. löggjafarþing — 42. fundur,  10. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[15:38]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Ég vil fyrst kannski koma inn á að eflaust geta einhverjar kirkjur og einhverjir söfnuðir, fjölmennir söfnuðir, einkum á höfuðborgarsvæðinu, rekið sig án þess að til komi sérstakt framlag frá ríki. En þeir eru ekki margir. Þetta samkomulag grundvallast á þeim eignum sem ég nefndi áðan og við þekkjum og við erum búin að fara yfir. Hvað aðra söfnuði varðar er náttúrlega óeðlilegt að þegar þeir hafa ekki lagt neitt í staðinn, eins og t.d. jarðeignir, eigi þeir eitthvert tilkall til sérstakra greiðslna. En ég minni á að þeir fá sóknargjöld eins og önnur trúfélög þannig að það er gætt jafnræðis í þeim efnum. En hv. þingmaður spyr hvernig ég sjái þetta fyrir mér. Ég sé þetta fyrir mér þannig að hér er búið að gera mjög gott samkomulag sem gefur kirkjunni frelsi og tækifæri til þess að haga sínum málum, þá sérstaklega fjárhagsmálum, (Forseti hringir.) eftir því sem hún telur best í þeim efnum og þar með hvernig hún skipuleggur kirkjustarfið, sem er bara mjög jákvætt.