150. löggjafarþing — 42. fundur,  10. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[16:24]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég tek undir orð hv. þm. Halldóru Mogensen. Mér finnst alveg merkilegt að þegar styttist í að fyrsti jólasveinninn komi til byggða virðist forseti Alþingis gjörsamlega hrökkva af hjörunum. Mér finnst þessi fundarstjórn afskaplega sérkennileg. Það vill svo til að ég er ekki nýr í þessum sal og ég skil ekki af hverju við þurfum alltaf að enda í þessum hjólförum, af hverju forsvarsmenn þingsins, þeir sem hafa meiri hluta, geta ekki einfaldlega sest niður og samið eins og hér verður að lokum gert — við skulum bara tala alveg ískalda íslensku. Þessi störukeppni er kjánaleg fyrir alla. Á meðan Íslendingar búa sig undir vont veður, eins og bent var á, erum við að ræða um málefni þjóðkirkjunnar, með fullri virðingu fyrir henni. Mér finnst það mjög sérkennileg skilaboð að hér eigi að fara að tala inn í kvöldið, ef það er rétt. Það væri mjög gagnlegt að fá skýringar á því hvort við höldum áfram til kl. 17 eða ekki.

Nú eru nokkrir landsbyggðarþingmenn farnir heim, m.a. eftir tölvupóst sem forseti þingsins sendi. (Forseti hringir.) Starfsmenn fengu sömuleiðis leyfi til að fara um kl. 15. Mér finnst fundarstjórn í sjálfu sér verulega ábótavant hvað þetta varðar.