150. löggjafarþing — 43. fundur,  11. des. 2019.

svar við fyrirspurn.

[15:07]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Ég kem hér upp undir liðnum um fundarstjórn forseta öðru sinni vegna þess að ég er auðvitað þakklátur forseta fyrir það sem hann og forsætisnefnd hafa gert í þessu máli en það er einnig þess vegna sem ég hef áhyggjur. Þrátt fyrir þetta og þrátt fyrir að yfirlögfræðingur Alþingis hafi gefið út álit í þessu efni skirrast ráðherrar enn við að svara þessari sömu fyrirspurn.

Þá spyr ég: Hvert erum við komin þegar það dugir ekki einu sinni að forseti og forsætisnefnd álykti um mál eins og þetta, að yfirlögfræðingur Alþingis gefi út greinargerð sem send er viðkomandi ráðherrum sem og hæstv. forsætisráðherra? Hvert er Alþingi komið ef meira að segja þetta hreyfir ekki við framkvæmdarvaldinu, að standa við það að liðsinna þingmönnum í því að sinna nauðsynlegri eftirlitsskyldu sinni með framkvæmdarvaldinu?