150. löggjafarþing — 43. fundur,  11. des. 2019.

tollalög o.fl.

245. mál
[15:54]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Ég styð sameiningar ríkisstofnana, sparnað og ráðdeild í ríkisrekstri og mun því styðja þetta mál en hef vissar athugasemdir við það. Í fyrsta lagi tel ég að ekki hafi verið nægilega hugað að því hvort það samrýmist hefðbundnum viðmiðum í nútímaþjóðfélagi hvort eðlilegt sé að fela einni stofnun svo mikil völd eins og hér er gert, að álagning, innheimta, eftirlit og að sumu leyti úrskurðarvald, tollgæsla, haldlagning, sektarheimildir í tolli og aðrar heimildir sem allar liggja á sömu hendi fái staðist valddreifingarkröfu dagsins í dag.

Í öðru lagi hef ég áhyggjur af tollgæslunni sjálfri sem að stórum hluta gengur út á að sinna vörslu á landamærum, hafa eftirlit með varningi sem ber að tollskoða og leggja á innflutningsgjöld og hins vegar að stemma stigu við því að hingað séu flutt inn ólögleg vímuefni af nokkru tagi.

Ég legg megináherslu á að vörslu landamæra ríkisins sé sinnt af ábyrgð. Vinnubrögðin og skortur á samráði við undirbúning þessa máls vekja með mér vissan ugg (Forseti hringir.) um árangur þessarar sameiningar.