150. löggjafarþing — 43. fundur,  11. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[16:38]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Kannski ég byrji á því að segja að ég fékk leiðréttingu frá öðrum hv. þingmanni. Kirkjujarðasamningurinn var birtur en ekkert af því sem ég nefndi kom fram í honum. Hvað varðar þá yfirburðastöðu sem hv. þingmaður talar um þá sé ég þetta einmitt öfugt, kirkjan gaf vissulega frá sér allar landeignir sínar, að mér skilst, án þess nokkurn tíma að þurfa að tilgreina hverjar þær væru. Mér finnst það vera yfirburðasamningsstaða hjá þjóðkirkjunni á þeim tíma. Og ekki bara það. Hún fékk ekki bara að sleppa því að tilgreina hvaða eignir væri um að ræða heldur fékk hún samning upp á óendanlega háar greiðslur, þ.e. fastar greiðslur til óendanlega margra ára í þeim samningi. Þannig að já, tökum kirkjuna af auglýsingamarkaði eða öllu heldur reynum alla vega að takmarka með hvaða hætti trúarlegri innrætingu er beitt, gagnvart börnum sérstaklega. (Forseti hringir.) Varðandi eignaupptöku: Við erum ekki að tala um eignaupptöku, það er búið að greiða fyrir þessar eignir.