150. löggjafarþing — 43. fundur,  11. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[17:17]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir orð hv. þingmanns. Ég hef mjög góða reynslu af þjóðkirkjunni eins og ég gat um í minni ræðu, ég hef leitað til hennar bæði í blíðu og stríðu. Ég átta mig vel á því hvaða hlutverki hún hefur gegnt í mínu lífi og líka annarra. Auðvitað hafa aðrir kannski reynslu af öðrum trúfélögum. Gott og vel. Það er trúfrelsi og fólk á bara að geta iðkað sína trú með þeim hætti sem það kýs. Ég ætla ekki að skipta mér af trúarlífi annars fólks. Þjóðkirkjan er mikilvægur þáttur í okkar samfélagi, hvort sem það er í trúarlífi, menningarlífi, í velferð o.s.frv., eins og ég gat um, og ég vil alls ekki taka undir þau orð, hafi einhver sagt þau, sem gera lítið úr því starfi sem þjóðkirkjan hefur innt af hendi á Íslandi. Það er mjög mikilvægt og mér finnst að við eigum að halda því á lofti.

Aðeins varðandi stjórnsýslulögin. Jú, mér finnst þetta svo áhugaverð pæling. Kannski getur hv. þingmaður, verandi lögmaður, upplýst mig: Telur hv. þingmaður að stjórnsýslulögin nái til starfsmanna þjóðkirkjunnar? Gildissvið stjórnsýslulaga er á þann veg að lögin gilda þegar stjórnvöld taka ákvörðun um rétt og skyldur manna. En svo vitum við það — Páll Hreinsson kenndi mér það — að þetta gildissvið getur náð til einkaaðila ef þeir taka stjórnsýsluákvarðanir, fara með opinbert vald. Læknirinn sem er á einkastofu getur þurft að lúta vilja stjórnsýslulaga eða fallið undir gildissvið þeirra. Það er fróðlegt að velta fyrir sér: Eru prestar í þeirri stöðu líka? Segjum að prestur neiti að gifta samkynhneigt par. Er það réttur hans? Er hann að brjóta stjórnsýslulögin? Það væri fróðlegt ef hv. þingmaður gæti brugðist við því í einnar mínútu svari hérna rétt á eftir.