150. löggjafarþing — 43. fundur,  11. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[17:23]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef stutt aðskilnað ríkis og kirkju. Samfylkingin er með það á stefnuskrá að styðja aðskilnað ríkis og kirkju. En að sama skapi: Ef þjóðin vill halda í þjóðkirkjuna á hún væntanlega rétt á því. Niðurstaða atkvæðagreiðslunnar sýnir að 57% af þjóðinni vildi hafa ákvæði um þjóðkirkju. Auðvitað lútum við þeim vilja. Ég tek undir það sem hv. þingmaður segir að það væri óskandi að menn færu að öllu leyti eftir þeirri atkvæðagreiðslu. Það var margt annað í þessari þjóðaratkvæðagreiðslu en bara um kirkjuna.

Varðandi jafnræði. Það er auðvitað trúfrelsi á Íslandi. Það skiptir máli. Það er trúfrelsi og ég skil alveg hvað hv. þingmaður er að tala um, að það sé brotið gegn jafnræði. En það er eitt mikilvægt atriði þegar kemur að jafnræðisreglunni, það má mismuna fólki sé það gert með málefnalegum hætti. Það er misskilningur að halda að jafnræðisreglan, hvort sem hana má finna í stjórnarskrá eða stjórnsýslulögunum, eða hin óskráða jafnræðisregla, tryggi jafnræði á einn eða annan hátt. Við mismunum á hverjum einasta degi hér inni í þessum sal, bæði í skattalöggjöf, í bótakerfinu og öðru slíku þannig að það má mismuna, það er ekki stjórnarskrárbrot, sé það gert málefnalega. Ég skil alveg hvað hv. þingmaður er að segja hér um að þessi mismunun á trúfélögum standist ekki. Það er gott og vel og ég hlusta á þau rök og ég get tekið undir að það geti alveg verið spurning hvort hið sérstaka samband sem ríkið hefur við þjóðkirkjuna, eitt trúfélaga, sé hugsanlega brot á jafnræði með ómálefnalegum hætti. En ég held samt að fáir myndu treysta sér til að fullyrða að núgildandi fyrirkomulag þjóðkirkjunnar séu stjórnarskrárbrot þar sem það sé brot á jafnræðisreglu. Ég tel svo ekki vera.