150. löggjafarþing — 43. fundur,  11. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[17:44]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er líka gert ráð fyrir því í 40. gr. laganna að samningstíminn megi vera lengri ef um umfangsmiklar fjárfestingar er að ræða. Um það er ekki um að ræða í þessu og það er ekki reynt að rökstyðja að verið sé að nýta þá undanþáguheimild. Hér gilda því þessi fimm ár þegar allt kemur til alls. Þegar það blasir við verður maður að velta því fyrir sér hvort um ólöglegt samningsákvæði sé að ræða sem merki ekki neitt. Þó að það standi hérna á blaðinu og allir skrifi undir það þá hefur það einfaldlega enga merkingu af því að lögin yfirskrifa það. Það er ekki hægt að vera með ráðningarsamning upp á launaleynd, það er ólöglegt. Þó að þú skrifir undir slíkan samning ertu samt ekki bundinn því samningsákvæði.

Það er einmitt meira í þessum hluta laga um opinber fjármál sem, þegar allt kemur til alls, gerir þinginu ómögulegt að sinna eftirlitshlutverki sínu í þessu máli. Það er auðvitað æðislegt fyrir ríkisstjórn og stjórnvöld hverju sinni að geta hent 3,5 milljörðum þarna inn á hverju ári og geta bara gleymt því hvað er gert við þá. En við berum ábyrgð á því að við séum að fá þá þjónustu sem við erum að kaupa, eins og hefur verið talað um hérna í umræðunni. Við viljum að sjálfsögðu fá að vita og almenningur ætti að vilja fá að vita hvað það þýðir að styðja og vernda þjóðkirkjuna samkvæmt stjórnarskránni. Það er hápólitískt mál sem við getum rætt, hvert umfang þess er. Við fáum ekki að vita það því að það er ekki sundurliðað. Það að geta ekki spurt og fengið svar við þeirri gríðarlega einföldu spurningu hvaða eignir þetta eru er stjarnfræðilega galið, sérstaklega miðað við að það á að klára innleiðingu á lögum um opinber fjármál í ríkisreikningi 2019 þar sem þetta á allt að liggja fyrir. 2019 er að klárast og það ætti að vera búið að afgreiða það hvernig þetta lítur út. En það er greinilega ekki búið.