150. löggjafarþing — 43. fundur,  11. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[20:06]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Það er margt mjög áhugavert í þessu. Það er efni í aðra ræðu bara að svara þessu. En í fyrsta lagi myndi ég gjarnan vilja sjá stjórnarskrárbundið ákvæði um að ríkinu væri óheimilt með öllu að gera ótímabundna samninga. Ég sé engin rök sem hníga til þess að ríkið geri ótímabundna samninga. Það hýtur að þurfa að vera möguleiki fyrir Alþingi á hverjum tíma að koma að því að endurskoða þá samninga sem ríkið hefur gert. Mér þykir það líka mjög áhugavert, sem ég myndi kalla hálfgerð hringrök, að við erum með býsna skýr ákvæði um að ríkinu sé ekki heimilt að ráðstafa né kaupa eignir án heimildar þingsins en síðan þegar kemur að útgjöldum ríkissjóðs segir í stjórnarskrá að ekkert gjald megi inna af hendi nema fyrir því sé heimild í fjárlögum. Á grundvelli þess virðist framkvæmdarvaldið geta gert samninga til ára og áratuga — eða ótímabundna eins og þann samning sem hér er um að ræða — án þess að sækja sér sérstaka heimild þingsins til að gera slíkan samning yfir höfuð og einfaldlega vera búið í raun og veru að binda hendur þingsins jafnvel til næstu áratuga án þess að hafa sótt sér heimild til slíkrar skuldbindingar til þingsins í upphafi en setja þingið einfaldlega í þá stöðu frá ári til árs að segja: Ef þið samþykkið ekki fjárveitinguna til að efna þennan samning kann ríkið að vera skaðabótaskylt frá hinum endanum á grundvelli þeirra skuldbindinga sem við höfum undirgengist fyrir hönd ríkisins. Þetta finnst mér algerlega ótækt fyrirkomulag og mér finnst þetta virðingarleysi fyrir hlutverki löggjafans í skuldbindingum ríkissjóðs. Auðvitað á ekki að vera hægt að gera svona (Forseti hringir.) og þegar lög um opinber fjármál segja að ekki skuli gera samninga til lengri tíma en fimm ára, þá skal ekki gera slíka samninga nema færð séu fyrir því mjög góð rök af hverju það er gert. Það er ekki gerð tilraun til þess hér.