150. löggjafarþing — 43. fundur,  11. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[20:39]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Förum aðeins í annað sem hv. þingmaður vakti athygli á í ræðu sinni og hefur aðeins verið talað um áður, þ.e. fjölda starfsmanna sem er verið að taka burt með þessu viðbótarsamkomulagi. Vissulega er það svo og bara ágætt að svo sé, en í viðbótarsamkomulaginu er tiltekið að sú upphæð sé verðtryggð með tilliti til launavísitölu upp á 90%. Þá er í rauninni verið að segja að þessi upphæð sé til launa. Vissulega getur kirkjan þá lækkað laun presta, fjölgað þeim þannig og stjórnað hlutfallinu á einhvern hátt, en þó að ekki sé sett ákveðin fjöldatala eru samt ákveðin laun greidd með þessu viðbótarsamkomulagi. Mér finnst það ekki alveg passa og mér finnst það upplýsa meira einmitt um það að tilgangurinn er bara að borga prestum launin, ekki neitt annað.