150. löggjafarþing — 43. fundur,  11. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[20:49]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég tek undir orð hv. þm. Björns Levís Gunnarssonar um að það væri ágætt að ráðherra væri í salnum til að svara ákveðnum spurningum. Ég var t.d. í minni ræðu með spurningar um stjórnsýslulögin, hvort þetta frumvarp hefði þær afleiðingar að stjórnsýslulögin næðu ekki til stjórnvaldsákvarðana eða ákvarðana sem prestar tækju, hvort þar á væri efnisleg breyting eða ekki. Ég átta mig ekki alveg á því, en er sannfærður um að hæstv. dómsmálaráðherra veit svarið við því. Það væri ágætt að hún væri þá í salnum til að svara svona grundvallarspurningum eða leiðrétta misskilning sé misskilningur á ferðinni.

Þetta virðist vera eitt af forgangsmálum ráðherrans fyrst hún fór fram á við veittum afbrigði til að koma málinu á methraða inn í þingið rétt fyrir jólahlé.