150. löggjafarþing — 43. fundur,  11. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[21:35]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég get bent hv. þingmanni á að þótt hann þurfi tíma þangað til á næstu öld á hann fimm mínútna ræðu sem hann getur komið upp í og svarað því sem aflaga fór hjá mér, væntanlega fleiri en eina ræðu ef út í það er farið. Þá hlakka ég til að eiga frekari skoðanaskipti við hann um þetta mál.

Það kann vel að vera rétt hjá hv. þingmanni að það sé rétta leiðin að gera sem flestum kleift að lesa Nýja testamentið og fleira til að það sé hægt að kollvarpa kristinni trú og ég á þá von á því að Píratarflokkurinn beiti sér t.d. fyrir því fyrir næstu kosningar að dreifa trúarritum kristinna manna (Gripið fram í.) til að vera alveg klár á að þetta fari allt saman eitthvert. Að öðru leyti fékk ég svo sem ekki svo margar spurningar. En jú, ég veit ekki betur en grunnskólarnir í Reykjavík, þ.e. fræðsluráð í Reykjavík, hafi bannað það að Gídeonfélagið dreifi hér Nýja testamentinu og það hefur komið fram bæði í fréttum og annars staðar. Ef það hefur breyst fagna ég því mjög og hv. þingmaður hlýtur að gera það líka ef það veldur því að (Forseti hringir.) tilbeiðsla og kristin trú falli niður eins og hann telur æskilegt.