150. löggjafarþing — 43. fundur,  11. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[21:48]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég fagna þessu andsvari sérstaklega. Það er nú þannig að háværasta trúboðið á Íslandi í dag er vantrúboðið. Það fer mjög mikið fyrir því, á samfélagsmiðlum og úti um allt. Það er það trúboð sem vinnur, að því er virðist, á þeim forsendum eða með þeim aðferðum að tala niður þjóðkirkjuna fyrir það hvað hún sé ómöguleg á alla lund o.s.frv. En nú kem ég aftur að því sem ég sagði í ræðu minni því að nú talaði hv. þingmaður svolítið eins og hann væri að tala um þjóðkirkjuna eins og Haga eða Mjólkursamsöluna meðal trúfélaga og ég er bara ekki alveg sama sinnis þar. Að sjálfsögðu eru um 2/3 þjóðarinnar sem tilheyra þessum söfnuði og þess vegna hefur ríkið haft hönd í bagga með að styðja og vernda þessa kirkju eins og stjórnarskráin býður reyndar ríkinu að gera.