150. löggjafarþing — 43. fundur,  11. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[22:41]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ýmislegt í þessum lögum sem ég er alls ekkert mótfallinn. Ég kemst ekki í gegnum allar greinarnar á tveimur mínútum en það er sjálfsagt að skoða það í nefnd - ekki það að hún fái tíma til að skoða það ef út í það er farið, ekki ef frumvarpið á að fara í gegn fyrir jól og tímaáætlanir eiga að standa. Hæstv. dómsmálaráðherra segir - og mér finnst það undirstrika ákveðna forréttindablindu, þó að mér leiðist að nota það orð, gagnvart því að vera ráðherra og meðlimur stjórnarmeirihlutans - að það sé alveg hægt að taka þessa umræðu og ég spyr þá: Hvenær? (Gripið fram í: Óska eftir henni …) - Bara núna. Núna tökum við þessa umræðu (Gripið fram í.) þegar við erum að ræða þetta kirkjujarðasamkomulag, viðbótarsamninginn og lagalega útfærslu á honum. (Gripið fram í: Það hefur enginn óskað eftir því ...) Þess vegna ræðum við þetta hér á þeim ræðutíma sem við fáum. Ég skil ekki alveg þessa gagnrýni. Hæstv. dómsmálaráðherra lætur eins við getum haft einhverja umræðu en síðan vill hún ekki að við ræðum málið þegar það er á dagskrá. Þegar ég legg fram mál þarf ég að berjast um á hæl og hnakka til að fá það rætt yfir höfuð og það er alger martröð að fá það afgreitt úr nefnd og krefst yfirleitt einhvers konar þinglegs ofbeldis, bara að fá fólk til að byrja að hlusta og hvað þá samþykki fyrir því að mál sé afgreitt úr nefnd.

Virðulegi forseti. Það er bara ekki rétt þegar hæstv. dómsmálaráðherra talar um að hægt sé að taka ákveðna umræðu, það er ekki hægt nema þegar mál af þessu tagi eru rædd hér. Þess vegna kem ég í pontu og ræði þessi mál þegar þau eru til umræðu hér og það er allt í góðu. Ég get alveg sætt mig við að ræða þessi mál þegar þau eru til umræðu hér. En þá verð ég að hafna gagnrýni hæstv. dómsmálaráðherra á að það mál sé rætt í samhengi við þetta frumvarp. (Gripið fram í: Það er búið að ræða um trúmál.) Þetta frumvarp snýst ekki bara um lagatæknilegar breytingar heldur líka útfærsluatriði sem eru réttilega umdeild. Að mínu mati er algerlega óboðlegt í lýðræðisríki að hafa þetta stórfurðulega fjárhagslega samband milli ríkis og kirkju. Þess vegna ræðum við það þegar frumvarpið er til umræðu hér. Flóknara er þetta ekki fyrir mér, svo að ég vitni í hv. 5. þm. Reykv. s. Brynjar Níelsson. Ég vona að ég sé búinn að svara hæstv. ráðherra hvað varðar frumvarpið. Mér finnst ýmislegt fínt í því en þarna er V. kaflinn fallinn brott og þarna eru útfærsluatriði sem ég hef mikið við að athuga. (Forseti hringir.) Þess vegna vil ég ekki að þetta verði að lögum, alla vega ekki núna og vissulega ekki án fullrar þinglegrar meðferðar eins og stefnir í.