150. löggjafarþing — 43. fundur,  11. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[23:09]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir spurningarnar og byrja þar sem þingmaðurinn lauk máli sínu. Hann spurði hvort eðlilegt væri að binda hendur þingsins til næstu 15 ára við samning við stofnun sem fer síminnkandi. Nei, auðvitað er það mjög óeðlilegt. Einn af forsvarsmönnum ríkisstjórnar Íslands hefur sagt aðspurður í umræðum um þjóðarsjúkrahúsið okkar, Landspítalann, sem tekur endalaust við verkefnum, m.a. vegna þess að verið er að skera niður annars staðar, að það sé eitthvað að svona kerfi sem tekur sífellt við meiri og meiri pening en lendir samt í kröggum. Í þessu tilviki, þegar kemur að þjóðkirkjunni eða kirkju fólksins, erum við með þá stöðu að kirkjan tekur við sífellt meiri peningum af því að hún gerði samning 1997 sem er svo uppfærður reglulega með tilliti til verðlags, en þeim fækkar alltaf sem nýta þjónustuna. Þeim fækkar umtalsvert, öfugt við þjóðarsjúkrahúsið okkar, Landspítalann, sem fær alltaf fleiri og fleiri verkefni, en kirkjan fær samt meiri pening. Ég ætti kannski að spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort ekki sé eitthvað að slíku kerfi þegar ríkisstjórnin ákveður að sópa peningum, ekki bara frá 1997 heldur næstu 15 árin, inn í kerfi sem er með þessum hætti.