150. löggjafarþing — 43. fundur,  11. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[23:21]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hygg að hérna í umræðunni sjáist að þeir fletir eru til þar sem þingmenn verða í einhverjum tilfellum sammála um hluti sem varða skipulagið, jafnvel þótt þeir séu kannski ósammála um samband ríkis og kirkju í heildina og sér í lagi fjárhagslegt samband ríkis og kirkju. Ég veit að ég og hv. þingmaður lítum hlutina mjög ólíkum augum hvað varðar bæði fjárhagslega sambandið og stjórnarskrárlega sambandið, hvort tveggja finnst mér óeðlilegt og rangt á ýmsan hátt. Hins vegar er ég þeirrar skoðunar að kirkjan eigi að vera sjálfstæð. Mér finnst þó svolítið skrýtið að hún eigi að fá að ráða sínum málum meira eða minna alfarið sjálf á sama tíma og hún á að njóta sérstakrar verndar og sérstaks stuðnings og vera í þessu sérstaka fjárhagslega sambandi, af hvaða sögulega ástæðum sem það kann að vera. En ég óskaði eftir að koma í andsvar vegna þess að þegar hv. þingmaður hóf ræðu sína, sem var eflaust áhugaverð og mikilvæg fyrir meðlimi í þjóðkirkjunni og fyrir fólk sem hefur áhuga á störfum þjóðkirkjunnar, fór ég að velta fyrir mér hvernig það myndi hljóma ef ég kæmi hingað upp í pontu og færi að tala um að mér fyndist ekki að það ætti að vera fimm manna stjórn eða að það ætti að vera fimm manna stjórn eða hvaðeina í einhverjum félagasamtökum úti í bæ sem ég væri meðlimur í. Það væri mjög skrýtið. Mér fannst annars ágæt ræða hv. þingmanns minna á hversu skrýtið það er að vera með slík tengsl.

En mig langar til að reyna að fá fram hjá hv. þingmanni fram hvar við gætum verið sammála um að hlutirnir eigi ekki heima hjá ríkinu heldur hjá kirkjunni sjálfri, þ.e. hvar eigi ekki að vera samband á milli ríkis og kirkju. Það er nefnilega ýmislegt í þessu frumvarpi sem ég er alveg hlynntur því að ég átta mig ekki á því hvers vegna starfsmenn þjóðkirkjunnar ættu að vera ríkisstarfsmenn og finnst það skrýtin ráðstöfun, eins og reyndar öll þessi ráðstöfun. Mér finnst skrýtið að þessi lög séu til staðar yfir höfuð. (Forseti hringir.) Ég kann kannski ekki að koma þessu frá mér sem spurningu. Ég velti bara fyrir mér: Finnst hv. þingmaður ekkert skrýtið að við séum hér í pontu að ræða einhver innri störf kirkjunnar? Er það ekki svolítið skrýtið? Ættum við ekki að reyna að ljúka því og hafa það ekki þannig?