150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

upplýsingar úr Samherjaskjölunum.

[10:42]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Ég var ekki að ýja að því að hún hefði verið sjávarútvegsráðherra á þessum tíma heldur var ég aðallega að velta upp alvarleika málsins. Við vitum að um 60.000 skjöl eru hjá Wikileaks. Það er búið að birta 30.000 af þeim. Það tekur ansi langan tíma að fara yfir allt þetta. Ég er að meina, eins og ég beindi því beint til ráðherrans áðan, hvort hún hafi yfir höfuð eitthvað skoðað þessi gögn sem liggja opin öllum sem þau vilja skoða með tilliti til þess að verið er að kalla eftir því hjá héraðssaksóknara að fá aukinn mannskap.

Þetta eru 60.000 skjöl. Við erum algjörlega að koðna niður undan 600 blaðsíðum þegar við erum að reyna að klóra okkur í gegnum fjárlögin. Ég segi því bara: Hann biður um sex einstaklinga núna strax til að aðstoða sig við þetta. Ég geri ráð fyrir því að það þurfi ansi öflugan her til að geta að einhverju gagni skoðað 60.000 skjöl og þess vegna spyr ég aftur hæstv. ráðherra hvort hún hafi reynt að klóra sig eitthvað í gegnum þessi skjöl til að kynna sér þau betur. (Forseti hringir.) Ég held að alvarleikinn leyni sér ekki hjá neinu okkar.