150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[11:29]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þjóðkirkjan, eins og velflest annað sem við glímum við hérna, og eins og þessi stofnun sem við erum í, er mannanna verk. Hv. þingmaður talar um kostnaðinn og launin sem við erum að glíma við í þessu frumvarpi og því viðbótarsamkomulagi sem þessi lagabreyting hvílir á. Það liggur frammi fyrir okkur að viðbótarsamkomulagið, upp á 3,5 milljarða eða svo þegar búið er að taka allt saman, sem er undir því, lítur einmitt út fyrir að vera launasamningur við þjóðkirkjuna til að flytja þessa starfsmenn frá því að vera ríkisstarfsmenn yfir í að vera starfsmenn þjóðkirkjunnar. Þrátt fyrir allt annað, að þetta eigi að vera uppgjör vegna eignatilfærslu og ýmislegt svoleiðis, er þetta orðinn launasamningur sem er þarna undir. En til viðbótar fær kirkjan 2 milljarða eða 80% af sóknargjöldum, sem allir aðrir söfnuðir nota til þess að greiða prestum laun og þess háttar. Viðbótarsamkomulagið er launavísitölutryggt, 90% af viðbótarsamkomulaginu snýst um að uppfæra samkvæmt launum. Sóknargjöldin fyrir alla hina söfnuðina gera það ekki. Þá veltir maður fyrir sér, af því að þetta er mannanna verk eins og allt annað hérna, hvernig það samræmist jafnræði þegar allt kemur til alls. Allir aðrir söfnuðir þurfa að nota sóknargjöldin og það eru laun — en ekki samkvæmt launavísitölu. Og svo eru það 3,5 milljarðar í viðbót sem við skóflum fram hjá sóknargjöldunum til þjóðkirkjunnar fyrir laun og látum svo þjóðkirkjuna líka fá 80% af sóknargjöldunum aukalega. Hvernig passar þetta?