150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[11:52]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Það sér í sjálfu sér fyrir endann á þessari umræðu sem um margt hefur verið góð. Það er tvennt sem hefur staðið upp úr að mínu mati sem þeir sem hafa horn í síðu málsins hafa fært fram. Það er í fyrsta lagi meint forskot þjóðkirkjunnar sem er náttúrlega ekki fyrir hendi, heldur er verið að greiða þjóðkirkjunni afgjald fyrir þær eignir sem hún skilaði til ríkisins á sínum tíma. Ég hef farið yfir það áður í ræðu að ég tel að það verðmæti sem lagt er til grundvallar í þeim samningi hafi sýnt með rækilegum hætti í hvaða yfirburðastöðu ríkið var gagnvart kirkjunni þegar hann var gerður en mönnum hefur fundist að afgjaldið sé hátt miðað við það verðmæti sem tiltekið var í samningnum á sínum tíma. Það helgast, eins og ég segi, af því að í krafti yfirburðastöðu, þegar ríkið samdi, var verðmæti jarðanna sem til grundvallar lágu metið afar lágt. Ég held að allir sem koma nálægt verslun með jarðnæði séu sammála um að þar hafi ríkið hlunnfarið kirkjuna gríðarlega. Ég tel að það sé tómt mál að tala um að kirkjan njóti þar einhvers forskots umfram önnur trúfélög. Þeirri spurningu var varpað fram í umræðunni í gær hvaða eignum önnur trúfélög, sem gjarnan eru nefnd til samanburðar, hefðu skilað ríkinu til að geta fengið afgjald á sama hátt og þjóðkirkjan fær.

Annað vakti sérstaklega athygli mína í umræðunni hér í gær, þ.e. að hv. þingmenn töluðu mikið um að ekki væri alveg á ljósu hvaða þjónustu ríkið fengi fyrir þennan samning. Ég heyrði ekki betur en að einhverjir hv. þingmenn væru á því að gera ætti eins konar þjónustusamning við þjóðkirkjuna. Ég veit ekki, herra forseti, hvort það ætti kannski að vera á hendi Ríkiskaupa vegna þess að það mátti lesa á milli línanna að menn vildu kannski fá á hreint að kirkjan og ríkið skrifuðu undir samkomulag þar sem gengið væri út frá því að fyrir samkomulagið fengjust 1.500 skírnir, 2.000 fermingar, nokkur hundruð hjónavígslur og kannski par 1.000 greftranir. Þetta gæti haft ákveðið skemmtigildi ef þetta væri ekki svo víðáttufjarri öllum raunveruleika.

Auðvitað er það þannig að samningur sem þessi, sem er viðaukasamningur við áður gert samkomulag, hlýtur að vera umræðuefni. Þess vegna er svo vont, herra forseti, að þessi samningur skuli koma hingað inn í þingið svo skömmu fyrir jólahlé að ekki er gott að ræða þetta mál til hlítar. Þó verð ég að segja að sú umræða sem þegar hefur farið fram, og andsvör og svör við andsvörum sem reidd hafa verið fram, hefur örugglega orðið til þess að glöggva sýn á það hvernig þessi samningur er gerður, af hverju hann er gerður, hvert mikilvægi þjóðkirkjunnar er, bæði nú og í framtíðinni, að hið meinta forskot, sem menn hafa rætt, er í raun ekki til, hvernig þjóðkirkjan hefur átt í vök að verjast gagnvart því að mega ekki stunda sitt starf með eðlilegum hætti, t.d. barnastarf í Reykjavík, og fleira mætti tína til.

Að öllu sögðu, herra forseti, þykir mér þessi umræða hafa varpað nokkuð góðu ljósi á þetta mál og hún verður örugglega til að auðvelda okkur áframhaldandi framgang málsins þó að við hefðum gjarnan þegið meiri tíma til að vinna það.