150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[14:04]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Það er vissulega þannig að mikilvægt er að fólk hafi aðgang að sálfræðilegri aðstoð þegar þörf er á. Ég er þeirrar meiningar að það væri ágætt ef sú sálfræðilega aðstoð væri í raun sálfræðilegs eðlis frekar en guðfræðilegs eðlis. Mér reiknast til að þjóðkirkjan fái umfram sóknargjöld rúmlega 3 milljarða á ári og ég velti fyrir mér hvort fyrir slíkan pening væri ekki mögulegt að koma sálfræðingum inn í framhaldsskóla landsins, sálfræðingum inn í sjúkrahús landsins og bjóða upp á töluvert öfluga og góða sálfræðilega þjónustu fyrir þá sem þurfa á því að halda. Þetta hefði þann kost umfram sálgæslu presta að vera byggt á vísindalegum frekar en guðfræðilegum forsendum og vera þess eðlis að fólk, eins og ég, sem er ekki hluti af neinum trúarbrögðum, trúir kannski ekki þeim undirstöðukennisetningum, því myndi samt geta liðið vel við að nýta sér þá þjónustu.

Ég hef einu sinni nýtt mér sálgæslu þjónustuprests og hún var mjög góð. En til samanburðar við þá sérhæfingu sem hefur verið til staðar hjá sálfræðingum held ég að hún sé bara því miður ekki jafngóð vegna þess að þetta hlutverk er annars eðlis. Það er í raun það sem ég held að eigi að segja um það. Við verðum að átta okkur á því að veraldleg þjónusta af þessu tagi er miklu fleiri manns þóknanlegri í dag en hitt og kannski eðlilegra að við veitum fjármuni og það vel duglega í þann málaflokk vegna þess að ekki veitir af að sálfræðiþjónusta sé algengari og aðgengilegri en hún er í dag.