150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

skráning raunverulegra eigenda.

452. mál
[14:28]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eins og fram kemur í frumvarpinu er það flutt af efnahags- og viðskiptanefnd allri, þar á meðal mér. Það breytir því ekki að ég hef ákveðnar áhyggjur af skömmum fyrirvara í þessu máli. Hér er gert ráð fyrir að frá því að lög þessi taki gildi, við getum sagt um miðjan þennan mánuð, hafi fyrirtæki einungis tvo og hálfan mánuð til að bregðast við og ljúka skráningu. Það er vissulega mjög skammur fyrirvari fyrir allt undirliggjandi atvinnulíf landsins. En þegar nefndin fjallaði um málið á sínum tíma lá einnig fyrir að skráningarkerfið sjálft væri ekki fullfrágengið og ekki prófað. Ég velti því fyrir mér hvort hv. þingmaður og formaður efnahags- og viðskiptanefndar hafi einhverjar frekari upplýsingar um hvort búið sé að ljúka innleiðingu þessa kerfis og það sé þá tilbúið til að taka við þessum skráningum eða hvort einhverjar tafir gætu mögulega orðið á því sem gætu jafnvel gert erfitt um vik með þessa tímasetningu.

Hér er verið að bregðast við athugasemdum FATF og eftir því sem mér skilst er næsti fundur FATF í febrúar. Ég velti fyrir mér hvort stjórnvöld hafi einhverja fullvissu fyrir því að verði þetta atriði hér að lögum hafi það einhver áhrif á mögulega endurskoðun á veru okkar á gráum lista á fundinum í febrúar.