150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

skráning raunverulegra eigenda.

452. mál
[15:00]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Smára McCarthy fyrir ræðuna. Ég hef tekið eftir áhuga hans og margra félaga hans í Pírötum á vandaðri lagasetningu sem er góðra gjalda vert og ekkert athugavert við það. Síðasta vor var samþykkt í þessum sal með 53 samhljóða atkvæðum dagsetningin sem er nú í lögunum, þ.e. 1. júní. Þetta var samþykkt athugasemdalaust að fengnu nefndaráliti frá efnahags- og viðskiptanefnd sem hv. þm. Smári McCarthy skrifaði undir eins og held ég að allir aðrir nefndarmenn í efnahags- og viðskiptanefnd hafi gert, þar með talið breytingartillögu á dagsetningunni sem hvorki þingmaðurinn né neinir aðrir gerðu athugasemd við þá. Ef maður leggur þetta tvennt saman, sem sagt þá atburðarás og áhuga Pírata á vandaðri lagasetningu, því að vera ekki að flana að málum og breyta skyndilega o.s.frv., verðum við kannski að fá aðeins betri útskýringu á því hvað veldur þessum sinnaskiptum þingmannsins hvað þetta varðar. Mér finnst ekki alveg samhljómur í þessu. Það er verið að leggja til að flýta dagsetningunni af augljósum ástæðum. Það eru málefnalegar ástæður fyrir því að velja dagsetninguna eins og hún er valin vegna þess m.a. að tíminn í seinni hluta desember og fyrri hluta janúar er kannski ekki besti tími ársins fyrir fólk (Forseti hringir.) að vera í einhverjum svona verkum. Er einhver ástæða önnur en bara sú að þingmaðurinn er að þyrla upp moldviðri út af þessu máli sem þó er gott?