150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

fjáraukalög 2019.

364. mál
[16:13]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Haraldur Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Í fyrsta lagi: Hvers vegna tillaga um 18,7 milljónir vegna galla í húsnæði hjá tilteknu embætti? Meiri hlutinn rekur, held ég mjög ítarlega, í nefndaráliti um notkun varasjóða og notkun þeirra úrræða sem fjárreiðulögin gera ráð fyrir, að við erum kannski á svipuðum slóðum og hv. þingmaður var í andsvari sínu, við erum að feta okkur þá leið að nýta þau tæki og tól sem fjárreiðulögin gefa til þess að við séum ekki í einmitt svona tilfærslum. Það er tillaga meiri hlutans að bregðast við með þessum hætti. Við höfum gengið eftir því hvernig varasjóðir hafa verið nýttir. Það má lesa um það í greinargerð, og ég gerði það ekki sérstaklega að umtalsefni í minni framsöguræðu, að t.d. vegna málaflokks sjúkrahúsþjónustu hefur verið gengið á varasjóði vegna óvæntra áfalla í rekstri Sjúkrahússins á Akureyri.

Varðandi orlofsgreiðslurnar vorum við að fást við þetta fyrir ári síðan, já. Við höfum í þessu máli eins og mörgum öðrum verið að koma í farveg þeim skuldbindingum sem falla á stofnanir og gera má ráð fyrir fjárheimildum á móti og að menn færi þær rétt í sínu bókhaldi. Ég held að við getum verið sammála um að við höfum nú náð fram helstu breytingum sem við tölum oft um sem hin nýju fjárreiðulög eða ný lög um opinber fjármál. Skuldbindingar og færsla orlofsskuldbindinga eru bara í þeim flokki að við erum að ná utan um þetta. Ég gerði ekki grein fyrir því heldur, hv. þm. Björn Leví Gunnarsson, hvernig við förum með fjárheimildir á milli ára en það er hluti af því verki sem við þurfum líka að ná betur utan um í fjárstýringarvaldi okkar og að fjárlaganefndin sé upplýst um þær heimildir og við fáum ríkisreikninginn fyrr inn í þingið en við höfum fengið hann hingað til.