150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

fjáraukalög 2019.

364. mál
[16:15]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eitt af því sem ég bað einmitt um í nefndarvinnunni var rökstuðningur fyrir öllum þessum tillögum, hvernig þær uppfylltu eða uppfylltu ekki skilyrði laga um opinber fjármál um að vera tímabundin, ófyrirséð og óhjákvæmileg. Þær skýringar bárust ekki. Svörin voru einfaldlega: Það er útskýrt í frumvarpinu. En ástæðan fyrir því að ég spurði er að það eru ekki fullnægjandi útskýringar í frumvarpinu. Ég vil fá svör um hverja og eina tillögu en tökum bara sem dæmi lyf og lækningavörur. Þar eru hjálpartæki: 270 milljónir. Þar var einfaldlega bara vanáætlað. Það er ekkert óvænt við það. Það er eðlilegt í áætlanagerð að það sé áætlað of eða van og hér ætti væntanlega að nota 30. gr. laga um opinber fjárlög frekar en að grípa til fjárauka. Það er ekkert útskýrt neitt sérstaklega af hverju gripið er til fjáraukans. Þess vegna langar mig til þess að gera lokatilraun til að fá þann rökstuðning og fá þar af leiðandi fjáraukalagafrumvarpið (Forseti hringir.) inn í nefnd á milli 2. og 3. umr.