150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

fjáraukalög 2019.

364. mál
[17:20]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Aðeins um kirkjuna. Mér er hlýtt til kirkjunnar og hélt m.a. ræðu um hversu hlýtt mér er til hennar í gær og ætla kannski ekki að dvelja mikið við það. En það sem ég var að tala um er að kirkjan virðist koma í öllum fjáraukalögum, ekki bara í þessum fjáraukalögum. Hún kom líka í fjáraukalögum 2018, 2017 og 2016. Lög um opinber fjármál eru frá 2015 svo að ég velti þessu fyrir mér. Við hljótum að komast upp úr þessum hjólförum, að kirkjan sé alltaf að lenda í fjáraukalögum. Hún vill væntanlega ekki lenda þar en eins og ég skil það eru þetta síðustu fjáraukalögin þar sem kirkjan dúkkar upp.

Varðandi varasjóðina: Já, ég er alveg sammála. Við þurfum aðeins að skoða notkun varasjóða, bæði hins almenna og eins varasjóð málaflokka. Greinargerð laganna er ekkert sérstaklega ítarleg, t.d. varðandi nýtingu á varasjóðum málaflokka. Þar er bara talað um að útgjöldin séu óvænt. Eins og a.m.k. ég skil lögin eru skilyrði notkunar almenna varasjóðsins þrengri en það getur verið misskilningur hjá mér. Ég minni líka á að ráðherra ætlaði að setja einhverjar reglugerðir um nýtingu varasjóða. Er ekki rétt hjá mér að það sé ekki enn þá búið að gera það? Síðast þegar ég vissi, a.m.k., og nú horfi ég á Björn Leví. Nei. Einmitt.

Síðan bendir Ríkisendurskoðun m.a. á að þeir eru að kalla eftir að með frumvarpinu sem við erum að ræða hér hefði verið æskilegt að við hefðum fengið yfirlit um ráðstöfun og stöðu varasjóða á árinu, fyrir utan umræðuna um að sumir málaflokkar virðast ekki hafa varasjóði. En kannski erum við að fikra okkur í rétta átt.

Hv. þingmaður hafði sérstaklega orð á því að það væri ánægjulegt að stjórnarandstaðan væri saman með nefndarálit. Já, það er sérstaklega ánægjulegt, held ég, og enn þá ánægjulegra í ljósi þeirra orða þingmannsins að hann hefði jafnvel getað skrifað undir margt í þessu nefndaráliti. Kannski getum við að ári bara öll verið með eitt sameiginlegt nefndarálit. Þess væri kannski óskandi. Þetta er ekki hægri vinstri mál, ekki flokkspólitískt mál, alls ekki. Ég er, eins og ég gat um áðan, ekki að reyna að hanka ykkur á neinu svoleiðis. (Forseti hringir.) Þetta er ekki þannig mál, langt í frá, þannig að mér finnst við alveg getað verið samferða hér.