150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

fjáraukalög 2019.

364. mál
[17:49]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Víglundssyni fyrir andsvarið og vangaveltur hans. Það má vel vera að ég hafi dottið í einhvern ham, en mér líður ekki þannig að verið sé eitt eða neitt að reyna að klekkja á mér. En þegar maður er farinn að svara ítrekað eftir sinni bestu vitund verður maður kannski fastari í orði. Mér finnst þetta ágætisvangaveltur og við erum auðvitað svolítið, eins og hefur kannski komið fram í umræðunni hérna og við höfum oft rætt í nefndinni, að hugsa um aðhald að matskenndum skilyrðum að einhverju leyti. Við erum að fást við þetta jöfnum höndum.

Ég get eiginlega ekki svarað þessu betur en í fyrra andsvari. En mér finnst þessar vangaveltur alveg góðra gjalda verðar og ég skil alveg sjónarmiðin. (Forseti hringir.) Við eigum örugglega eftir að ræða þetta betur. Hv. þm. Björn Leví Gunnarsson er búinn að kalla þetta mál aftur fyrir 3. umr. Þá getum við tekið þessa umræðu frekar.