150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

fjáraukalög 2019.

364. mál
[17:50]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni og formanni fjárlaganefndar, Willum Þór Þórssyni, fyrir ræðuna. Ég vildi koma aðeins að einu sem hann nefndi, hann orðaði það nokkurn veginn á þann veg að eflaust væri þörf fyrir að kenna embættismönnum eða ráðuneytunum að nýta varasjóðina. Mér finnst þetta svolítið athyglisvert vegna þess að svo virðist sem ráðuneytin annaðhvort vilji ekki lúta þessum nýju reglum sem um fjáraukann gilda eða þau átti sig ekki á því hvernig á að nýta varasjóðina.

Mér finnst það áhugavert sem hann nefndi hér og spyr hvernig hann sæi (Forseti hringir.) fyrir sér að við myndum reyna að fræða, ef má orða það þannig, og upplýsa betur þá sem koma að þessum málum um hvernig lögin eigi í raun að virka.