150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

fjáraukalög 2019.

364. mál
[19:53]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir hans ræðu. Eins og í fyrri ræðum í kvöld get ég alveg tekið undir margt af því sem hér kom fram, en annað ekki. Ég verð bara að játa að mér finnst hv. þingmaður vera fullsvartsýnn á köflum, og kannski dramatískur. En við erum jú að ræða þetta í fullri alvöru og við tökum þetta að sjálfsögðu alvarlega. Af því að hv. þingmaður kom inn á að þetta frumvarp væri bara eins og fyrri fjáraukalög vil ég samt draga það fram hér að það frumvarp til fjáraukalaga sem við fjöllum um hér er ólíkt fyrri fjáraukalagafrumvörpum. Það eru aðallega tveir liðir sem hægt er að draga fram þar, og kemur reyndar fram í greinargerð með frumvarpinu. Hér erum við ekki að gera breytingar á tekjuhlið en það er hins vegar fjallað um það sem fram kemur í efnahagsumhverfinu og högg á tekjur, og mismunandi tekjustofna. En það eru engar breytingar á tekjuhlið og þar með ekki á sjóðstreymi og afkomu. Hér eru fyrst og fremst lagðar til breytingar á framlögum til málaflokka þar sem aukinna fjárheimilda er þörf. Þetta vildi ég draga fram. En auðvitað má alltaf gera betur, eins og við nefnum í nefndaráliti meiri hluta.

Hv. þingmaður kom inn á málaflokk 10.04 um stjórnsýslu dómsmálaráðuneytis og þar er gerð tillaga um 8 millj. kr. fjárveitingu. Mér gefst ekki tími til að ræða það, tíminn líður ótrúlega hratt, en samtalið heldur áfram og við ræðum þetta frekar á fundi þegar og ef þessari umræðu lýkur.