150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

fjáraukalög 2019.

364. mál
[20:08]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir ágæta ræðu og rýni hans í málaflokk sem hann þekkir giska vel, gagnrýnar, djúpar og ágengar pælingar. Ég er að velta fyrir mér þessum málefnum. Við búum við lög um opinber fjármál frá árinu 2015 og það hefur verið áhugavert að fylgjast með umræðunni í dag um fjáraukalagafrumvarpið. Þar hafa menn skipst á skoðunum og ekki verið alveg sammála um áherslur. Menn hafa tekist á um það hvort verið sé að fara í kringum þessi nýju lög með því að vera með allt of hátt hlutfall, á annan tug milljarða eða jafnvel tvo tugi, í fjáraukalögum, nokkuð sem ætti að vera í fjárlögum, þetta væru í raun ekki ófyrirséð atriði sem menn væru að fjalla um heldur atriði sem menn ættu að skipuleggja innan fjárlagaramma ársins.

Mig langar að spyrja þingmanninn um ástæður þess að menn ná ekki betri tökum á opinberum fjármálum. Er þetta kannski í ásættanlegum farvegi, miðar okkur áleiðis, eða þurfum við að gera eitthvert sérstakt átak? Eru viðjar vanans sterkar? Eru það fjötrar hugarfarsins eða er þetta meðvituð leið til að nálgast fjármuni sem ekki var hægt að nálgast úr ríkissjóði með öðrum hætti á þessum tímapunkti?