150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

fjáraukalög 2019.

364. mál
[20:35]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Málefni Landspítalans eru vissulega mjög alvarleg, bæði hvað fjárlög og fjáraukalagafrumvarp varðar, því að við fengum að vita tiltölulega seint að allt í einu væri 3,5 milljarða kr. niðurskurður á framkvæmdum á næsta ári í fjárlögum. En ekki nóg með það heldur eru 1,5 milljarðar í niðurskurð í fjáraukalögum á þessu ári sem við fengum ekkert að vita af fyrr en fjáraukalagafrumvarpið kom fram. Það eru 5 milljarðar þarna sem að sögn á að bæta upp á seinni stigum framkvæmdatímabilsins og það á ekki að seinka neinu. Það eina sem það segir mér í raun er að hægt væri, á meðan ekki er verið að gera neitt, að gera eitthvað og klára þá verkefnið fyrr og njóta ábatans af því mun fyrr.

Það var eitt sem hv. þingmaður nefndi sem vakti áhuga minn og það var varðandi kirkjujarðasamkomulagið; í því samhengi að gera ráð fyrir þeim fjárheimildum á þessu málefnasviði til kirkjujarðasamkomulagsins, hvort sem allt væri nýtt eða ekki, það þyrfti ekkert endilega að nýta allar fjárheimildir sem voru áætlaðar í það, þá á að sjálfsögðu að reyna að gera eitthvað hagkvæmara. Þá datt mér í hug ákveðin samtenging við Íslandspóst; þetta er ákveðin alþjónusta trúarlegrar starfsemi á Íslandi hvað þjóðkirkjuna varðar, hvort við gætum ekki þróað okkur í áttina að því að vera með ákveðinn alþjónustusamning sem væri sambærilegur við póstþjónustuna. Hvað fleira erum við með í alþjónustu? Það datt úr mér akkúrat eins og er, en það er eitthvað fleira. Jú, nú erum við komin með þriðja orkupakkann, hann er líka með alþjónustu varðandi dreifingu raforku. Ég spyr hvort það væri ekki ágætismódel fyrir þessa þjónustu þegar allt kemur til alls.