150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

fjáraukalög 2019.

364. mál
[20:45]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur fyrir alveg prýðisgott andsvar. Til að taka af öll tvímæli til að byrja með þá sagði ég ekki að hér væri allt í kaldakoli eða ekki hér búandi. (BHar: Þú hljómaðir svolítið þannig.) Það er afskaplega gott að búa hérna og mér líður alla vega ágætlega hér og ég sagði einmitt að þessi niðursveifla sem svo margir vöruðu við væri í sögulegu samhengi bara ákaflega mjúk, engin ragnarök hér á ferðinni eða óþarfa svartsýni. Það sem ég var einfaldlega að benda á, og við var varað af fjölmörgum greiningaraðilum, var óhófleg bjartsýni, óraunsæi. Það er allt í lagi að horfa björtum en raunsæjum augum til framtíðar. Það má segja að við höfum alltaf gengið í gegnum umtalsverðar sveiflur og auðvitað eigum við að gera ráð fyrir því að þær sveiflur muni halda áfram og að hafa borð fyrir báru þegar þær ber að garði. Strax fyrir tveimur árum vorum við ítrekað vöruð við því að það væri að koma að skuldadögum hvað þetta varðaði og við þyrftum að gæta varkárni og ríkið væri of bjartsýnt.

Flokkar í minni hlutanum hafa ólíka afstöðu til þessa. Viðreisn hefur verið þeirrar skoðunar að útgjaldaaukningin hafi verið allt of mikil á grundvelli þeirra hagvaxtarforsendna sem lagt var af stað með. En þegar vísað er til þess að okkur beri lögum samkvæmt að fara eftir hagvaxtarspá Hagstofunnar, þá er það bara rangt. Okkur ber að horfa til greiningaraðila og efnahagsspáa sem gerðar eru og við megum horfa til einnar eða fleiri. Í fyrsta lagi er ágætt að horfa á það hvernig þeim ber saman. En þegar fjölmargir aðrir aðilar, þvert á Hagstofuna, vara við of mikilli bjartsýni er kannski ástæða til að sýna varkárni, varfærni, eins og það er orðað í lögunum um opinber fjármál, og hafa einmitt eðlilegt borð fyrir báru til að mæta tíðinni ef niðurstaðan verður mögulega lakari en gert er ráð fyrir. Það vill nú reyndar svo skemmtilega til að Hagstofan spáir eiginlega alltaf 2,7% hagvexti.