150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

fjáraukalög 2019.

364. mál
[20:48]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Það er ágætispunktur hjá hv. þingmanni að þetta skaðræðisveður sem gekk yfir og olli svo miklu tjóni á dreifingarkerfi raforku sem raun ber vitni er áhyggjuefni. Þar er nú kannski ekki vandinn að það skorti fjárheimildirnar því nú er umgjörðin þannig í kringum dreifiveiturnar sem slíkar, hvort sem það eru staðbundnar dreifiveitur eða Landsnet, að við erum með kerfi sem ætlað er að taka utan um þá fjárfestingu sem þarf að fara í í kerfinu en við komum okkur bara ekki saman um hvað við ættum að gera. Það væri svo sem ágætisupphaf ef stjórnmálin kæmu sér saman um það hvernig við ætlum að styrkja byggðalínuna sem er búið að tala um árum og áratugum saman að við þurfum að ráðast í verulega styrkingu á. Hvar ætlum við að leggja þær línur? Með hvaða hætti ætlum við að leysa úr? Það væri auðvitað mikið fagnaðarefni ef þetta yrði þörf áminning og tilefni fyrir okkur að taka nú einu sinni til hendinni og klára þetta því að það vantar ekki fjármagnið til að sinna þessum verkefnum. Það er inni í því ágæta kerfi sem við höfum komið okkur upp í kringum dreifingu rafmagns. (Forseti hringir.) En það vantar ákvörðun um það hvernig við ætlum að gera það.