150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

fjáraukalög 2019.

364. mál
[21:23]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Íbúafjölgun á Suðurnesjum á undanförnum fimm árum er 30%. Það hefur fjölgað um góðan meðalbæ, bara fjölgunin, en hins vegar hafa fjárveitingar til stofnananna sem eru á vegum ríkisins ekki hækkað í takti við þetta. Við ræddum þetta þegar fjárlög fyrir árið 2020 voru samþykkt. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann sé ekki sammála mér um að þegar við ræðum fjáraukalögin á árinu 2020 muni Suðurnesin bera á góma og ekki síst heilbrigðisstofnunin vegna þess að það er í rauninni fyrirséð að það þurfi að grípa til aðgerða því að það er auðvitað mikil íbúafjölgun sem verður að bregðast við og það er líka íbúasamsetningin sem er sérstök og fjárþyngri fyrir vikið.

Ég vil biðja hv. þingmann að fara yfir það á stuttum tíma hvað það er sem hann vildi helst sjá að kæmi út úr nefndinni sem er nú að störfum; hún hefur að vísu bara haldið einn fund en átti að vera búin að skila skýrslu um einmitt þjónustu ríkisins við íbúa Suðurnesja. Við sem að þeirri tillögu stóðum, sem var sú sem hér stendur ásamt hv. þingmanni og öllum þingmönnum Suðurkjördæmis, vorum að vona að niðurstaða kæmi 1. desember svo við gætum tekið á málinu í fjárlögum fyrir árið 2020 en svo varð ekki. Fyrsti fundur var (Forseti hringir.) haldinn núna á dögunum. Ég vil spyrja hv. þingmann hvað hann vonist til að sjá koma út úr því starfi.