150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

fjáraukalög 2019.

364. mál
[21:28]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Haraldur Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni fyrir ræðuna og hrósa honum fyrir að slá ekki þann tón sem margir félagar hans sem hafa talað áður, úr minni hluta sem hann skrifar upp á nefndarálit með, hafa slegið, að tala ekki með þeim hætti að allt sé á heljarþröm. Hann nálgast málið einfaldlega út frá þeim efnisþáttum sem mér finnst, virðulegi forseti, að við eigum að tala um fjáraukann út frá, hvað sé ófyrirséð og hvernig við stýrum fjármálunum. Það fannst mér vel gert í ræðu hans. Þess vegna fagna ég líka sérstaklega ágætu andsvari hv. þm. Oddnýjar G. Harðardóttur hér áðan, um forsögu þess að við byggðum upp og hugsuðum varasjóði í því lagaumhverfi sem við erum í. Mér fannst athyglisvert í andsvari hv. þm. Oddnýjar G. Harðardóttur þegar hún lýsti því svo vel hvernig við höfum náð miklu betri tökum á fjárstýringunni með þessu nýja lagaumhverfi. Hún sagði að allt að 5% frávik hefðu verið, að útgjaldaauki hefði verið í fjáraukanum.

Þess vegna langar mig í fyrra andsvari við hv. þm. Birgi Þórarinsson að spyrja hann: Er þetta fjárlagafrumvarp ekki einmitt bara ágætisdæmi um það að við erum á góðri leið? Hér eru minnstu frávik sem við höfum séð í fjáraukalögum, alla vega svo að ég þekki. Stóru frávikin eru vegna áfalla í efnahagslífinu og hv. þm. Birgir Þórarinsson féll ekki í þá gryfju að halda því fram að hann hefði séð þau öll fyrir eins og margir félagar hans í minni hlutanum, sem undir álit hans skrifa, hafa svolítið verið að gefa í skyn. Ég sit eftir með þá hugleiðingu eftir ágæta ræðu hans að við höfum náð ágætum árangri með þeim stýritækjum sem við höfum og ég spyr hvort hann geti ekki verið sammála því.