150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

fjáraukalög 2019.

364. mál
[21:35]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ágætisandsvar og hugleiðingar hans um að við séum á réttri leið. Ég tek alveg undir að við séum á réttri leið en engu að síður koma inn færslur og útgjaldaheimildir sem eru á skjön við það, að mínu mati, að við séum á réttri leið. Þá komum við að því sem hv. þingmaður nefndi réttilega um að gert verði átak, eins og meiri hlutinn segir í nefndaráliti sínu, í því að skerpa á notkun þessara laga og það tek ég heils hugar undir. Ég fagna því að þetta skuli vera í áliti meiri hlutans. Þetta er mjög skynsamlegt og tímabært og vonandi næst góður árangur með þetta átak. Við sjáum þá breytingar til hins betra við næstu fjárlagagerð og vonandi kemur svo til að það þurfi ekki frumvarp um fjáraukalög.

Ég tek undir það með hv. þingmanni að stjórnvöld séu á réttri leið í þeim efnum, enda eiga þau að vera það, lögin segja það beinlínis. Það er ekki hægt að skýla sér endalaust á bak við það að við séum að læra inn á lögin. Nú ættum við að vera farin að þekkja þessi lög nokkuð vel þannig að þeir hlutir eiga að fara að komast í fastari skorður. Við eigum ekki að þurfa að sjá fjárveitingar sem eiga alls ekki heima í fjáraukanum. Við sjáum það, en þeim hefur fækkað sem betur fer, ég skal taka undir það. Það stendur ekki á mér að vinna það með nefndinni að gert verði átak í þeim efnum þannig að við sjáum árangur.