150. löggjafarþing — 45. fundur,  13. des. 2019.

búvörulög og tollalög.

382. mál
[14:37]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Aðeins til að svara um 17 milljarðana. Það eru ríflega 16 milljarðar og hafa verið í búvörusamningnum sem var samþykktur á sínum tíma og er núna til yfirferðar í ráðuneytinu. Það eru einhverjar nýjar tölur ef þetta er komið niður í 12 milljarða. Það væri skondið ef það hefði verið meira þegar ég var í ráðuneytinu á sínum tíma.

Hitt er síðan það sem maður var að hugsa þegar ég var í nefndinni og var að hlusta á hvaða leið eigi að fara, uppboðsleiðina, sem er iðulega að mínu mati gagnsæjust. Þá er ekki verið að möndla með hlutina. En hollenska leiðin er blönduð leið sem ýtir undir m.a. nýliðun í innflutningi og getur veitt ákveðin tækifæri. Ég undirstrika það að mesta tækifærið fyrir innfluttar landbúnaðarafurðir og um leið fyrir innlendar landbúnaðarafurðir er að gera þetta allt frjálst. Það finnst mér vera mesta tækifærið. Í því felst mesta tækifærið, en ég segi þá: Gegn því að það sé stuðningur við bændur. Ég er ekki að tala um og ég vil ekki að mér séu lögð orð í munn, eins og sumir vilja gera hér, að með því að afnema tollana færum við ekki í að styrkja bændur. Við eigum bara að gera það markvisst, afnema tollana og fara í beina styrki til bænda, gera það saman. Ég er sannfærð um að það er til hagsbóta fyrir neytendur og fyrir framleiðendur og einfaldlega í takti við þær kröfur sem við gerum í dag um gagnsæi og fleira.

Þetta var auðvitað ákveðin kerskni hjá mér áðan og stríðni varðandi tollskrárnúmerin. Mér finnst það samt ekki gagnsæi að menn þurfi að fara og leita í nefndaráliti: Bíddu, hvað er verið að meina? Það á bara að segja um hvað málið snýst svo að menn þurfi ekki að fara og fletta upp í lagasafninu hverju sinni þegar menn eru að spá í fyrir hverju undanþága sé og hverju ekki.