150. löggjafarþing — 45. fundur,  13. des. 2019.

áhafnir íslenskra fiskiskipa, varðskipa, skemmtibáta og annarra skipa.

316. mál
[17:15]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta svar. Hann vitnar í starfshóp sem mun vinna að þessu máli og ég veit að það er ekki auðvelt að svara þessu en ég vildi vekja máls á þessu vegna þess að við erum svo heppin nú til dags að sjóslysum fer mjög mikið fækkandi. Þar spilar inn í náttúrlega að öryggismálin eru betri, bátar eru orðnir miklu betri og tæknin er orðin svo góð í sambandi við siglingar og eftirlit að það hafa komið ár þar sem enginn hefur farist á sjó og er það mikið gleðiefni. En ég hef áhyggjur af þessu tiltekna atriði með þessa báta vegna að þeir eru gerðir það stíft út að menn eru oft lítt hvíldir til heimstíms. Þarna eru um borð oft þrír, fimm og sex karlar í þessum bátum sem gerðir eru svona mikið út og auðvitað eru menn að reyna að standa sig en álagið er mikið á þessum áhöfnum. Þessir bátar eru að fiska, eins og ég sagði áðan, oft mikið meira en 200–400 tonna bátar voru að fiska fyrir nokkrum árum þannig að þeir eru nánast bara alltaf á sjó, ef veður leyfir.