150. löggjafarþing — 45. fundur,  13. des. 2019.

fæðingar- og foreldraorlof.

393. mál
[18:50]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Forseti. Það skiptir máli að vera með fjölbreytt sjónarmið. Ástæðan fyrir því að ég tala mikið um einstæða foreldra er að ég er einstætt foreldri. Ég þurfti á sínum tíma að teygja mitt fæðingarorlof yfir í níu mánuði, ég fékk bara sex, og þá voru launin mín mjög svo lág, með því að teygja það yfir í níu mánuði. Ég hefði í raun og veru ekki getað gert þetta ef ekki hefði verið fyrir það að ég á mömmu sem á ágætlega stóra íbúð sem ég gat búið í á meðan. Það er ekki á færi allra og það er voða lítið hugsað um þetta, hvað verður um einmitt þá foreldra sem hafa ekki tök á því að lengja fæðingarorlof sitt. Hvað verður um þau börn? Þau fá bara miklu minni tíma með sínu foreldri. Með þá þekkingu sem við höfum í dag, um hversu mikilvægur þessi tími er í þroskaferli barnsins, þá eigum við að taka ákvarðanir um hvernig fæðingarorlofi er skipt út frá þeim gögnum, út frá þeirri þekkingu sem við höfum um hvað er barninu fyrir bestu. Mér finnst við ekki vera að gera það hérna. Mér finnst við vera dálítið að taka ákvarðanir út frá því hvað er vinnumarkaðinum fyrir bestu og reyna að tryggja það að feður fái orlof með barninu sínu, sem er auðvitað rosalega mikilvægt. En ef markmiðið væri að börn fengju jafn miklar samvistir með feðrum sínum og mæðrum værum við mögulega að skoða spurninguna: Af hverju gefum við ekki báðum aðilum fæðingarorlof á sama tíma? Það er gríðarlega kostnaðarsamt, myndi kosta samfélagið fullt af peningum en það myndi ná þessum markmiðum líka, ef fjölskyldur fengju að vera saman, bæði feður og mæður saman með barninu, í einhvern tíma.

Ég held að við verðum að horfast í augu við það að sveigjanleiki er mikilvægur af því að fjölskyldumynstur eru svo ofboðslega fjölbreytt, það sem hver fjölskylda þarf á að halda. Það (Forseti hringir.) að taka ákvörðun um hvað sé fjölskyldum fyrir bestu er eitthvað sem við getum ekki séð fyrir (Forseti hringir.) og við getum ekki tekið ákvörðun fyrir fólk. (Forseti hringir.) Ef við viljum að feður taki meiri þátt í uppeldi barnanna eða taki lengra fæðingarorlof þurfum við bara að hækka greiðslur í fæðingarorlofi. (Forseti hringir.) Ég held að það sé góð leið til að fá fleiri karlmenn til að taka fæðingarorlof. (Forseti hringir.) Ég biðst afsökunar, forseti.