150. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2019.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.

319. mál
[11:07]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Það voru viðraðar áhyggjur og komu fram í nefndaráliti um að þetta væri ekki rétti staðurinn fyrir þessa stofnun. En það er annað sem ég hef meiri áhyggjur af þar sem mér finnst við eiginlega fljóta sofandi að feigðarósi og það eru brunavarnir. Það áhyggjuefni kemur að vísu fram í meirihlutanefndaráliti, t.d. í sambandi við gróðurelda. Þarna held ég að sé rosastór póstur þar sem allar þjóðir virðast hafa flotið sofandi að feigðarósi, ekki verið nógu vakandi yfir því hvaða áhrif gróðureldar hafa. Við sáum það núna síðast í Svíþjóð og við höfum séð þetta úti um allan heim. Það sem ég hef áhyggjur af í svona flumbrugangi og hjá félags- og barnamálaráðherra er að eitthvað svona gleymist. Við erum ekki að gera eitt eða neitt í þessum málum, við virðumst vera algerlega sofandi. Við getum tekið Skorradalinn sem dæmi. Það virðist ekki vera neitt um þetta og þess vegna hef ég áhyggjur af þessum málum þarna inni.